Erlent

Finnar kjósa sér for­seta í dag

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stubb á kjörstað í dag.
Stubb á kjörstað í dag. EPA

Forsetakosningar Finna fara fram í dag. Baráttan um embættið stendur milli níu frambjóðenda. Ef enginn þeirra hlýtur yfir fimmtíu prósent atkvæða fer fram önnur umferð eftir tvær vikur. 

Sá frambjóðandi sem sagður er sigursælastur er Alexander Stubb fyrrverandi forsætisráðherra og meðlimur íhaldsflokksins. Hans helstu keppinautar eru Pekka Haavisto, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Jussi Halla-aho úr popúlíska hægriflokknum Sönnum Finnum. 

Kjörtímabil forseta Finnlands er sex ár og forseti má sitja í embættinu tvö tímabil hið mesta. Núverandi forseti Finnlands, Sauli Niinistö, sem hefur notið vinsælda almennings hefur gegnt embættinu síðan 2012 og má því ekki bjóða sig fram að nýju. 

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum er ekki búist við að neinn frambjóðendanna hljóti yfir fimmtíu prósent atkvæða í dag. Búist er við að Stubb og Haavisto hljóti 23 til 27 prósent hvor, Halla-aho fái í kringum átján prósent og Olli Rehn, bankastjóri Finnska bankans, um fjórtán prósent. 

Stærstu málin í umræðum frambjóðenda að þessu sinni hafa verið verkefni Finnlands tengd NATO, en þar hefur Finnland verið aðildarríki síðan í apríl í fyrra. Einnig hafa varnarmál í tengslum við landamæri Finnlands og Rússlands auk stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs verið ofarlega á baugi.

Samkvæmt finnsku stjórnarskránni fer forseti með vald yfir utanríkis- og öryggismálum ásamt ríkisstjórn. Þá skipar hann forsætisráðherra og aðra ráðherra og undirritar frumvörp til laga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×