Körfubolti

Búinn að dæma átta hundruð leiki í efstu deild

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Það glytti í bros þegar Sigmundur gaf sig til tals við fréttamann eftir 800. leikinn.
Það glytti í bros þegar Sigmundur gaf sig til tals við fréttamann eftir 800. leikinn. skjáskot

Sigmundur Már Herbertsson dæmdi sinn 800. leik í efstu deild þegar hann var á flautunni í leik Keflavíkur og Stjörnunnar á föstudag. 

Það var táknrænt því Sigmundur dæmdi einmitt fyrst í Keflavík árið 1995 þegar hann var kallaður til með skömmum fyrirvara. Hann er annar dómarinn til að ná 800 leikjum en Kristinn Óskarsson er sá leikjahæsti með 848 leiki.

„Maður þarf að vera á tánum og meðvitaður um þróun í leiknum, sem er gríðarleg síðan ég byrjaði. Það er þetta sem gerir körfubolta að bestu íþrótt í heimi. Mér líst vel á framtíðina, ég held að hún sé björt en dómarar verða að fá sín tækifæri til að gera mistök“ sagði Sigmundur að leik loknum.

Hann var þá spurður hvort hann ætti ekki eitthvað eftir af ferlinum, hann svaraði því játandi og sagði flautuna ekki vera á leið upp í hillu alveg strax.

„Ég held að það hafi enginn dómari verið oftar kosinn besti dómarinn“ sagði Teitur Örlygsson, körfuboltagoðsögn og sérfræðingur í setti á Subway Körfuboltakvöldi. Þeir Sigmundur spiluðu einmitt saman sem leikmenn Stjörnunnar.

„Virðing á Simma, 29 ár og 800 leikir, þetta er ekkert smá. Simmi er ótrúlega stöðugur og jafn, hann er með þægilega nærveru og það er ástæða fyrir því að hann hefur verið kosinn dómari ársins“ bætti Helgi Már Magnússon við að lokum.

Klippa: Sigmundur Már dæmdi 800. leikinn

Innslagið allt úr Subway Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×