Enski boltinn

Miðar á lokaleik Klopps seljast fyrir næstum fjóra og hálfa milljón

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp þakkar áhorfendum á Anfield fyrir stuðninginn eftir bikarsigur Liverpool á Norwich City í gær.
Jürgen Klopp þakkar áhorfendum á Anfield fyrir stuðninginn eftir bikarsigur Liverpool á Norwich City í gær. getty/Robbie Jay Barratt

Miðaverð á síðasta heimaleik Liverpool á tímabilinu hefur rokið upp eftir að Jürgen Klopp tilkynnti að hann myndi hætta sem knattspyrnustjóri liðsins í vor.

Á föstudaginn greindi Klopp frá því að hann myndi hætta með Liverpool eftir þetta tímabil. Hann hefur stýrt liðinu frá því í október 2015.

Klopp stýrir Liverpool í síðasta sinn á Anfield þegar Wolves kemur í heimsókn í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í maí.

Eftirspurnin eftir miðum á leikinn hefur aukist gríðarlega eftir tíðindi föstudagsins og verðið á miðunum hefur hækkað gríðarlega síðan þá.

The Mirror greinir til að mynda frá því að miðar fyrir aftan varamannabekk Liverpool í leiknum gegn Wolves hafi verið auglýstir á 25 þúsund pund, þegar öll gjöld og skattar eru teknir saman. Það samsvarar tæplega 4,4 milljónum íslenskra króna. Venjulega kosta miðar á þessum stað á Anfield sextíu pund, eða rúmlega tíu þúsund krónur.

Stuðningsmenn Liverpool vonast væntanlega líka til að þeir fái að sjá liðið sitt lyfta Englandsmeistarabikarnum í lokaumferð. Liverpool er sem stendur með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool vann 5-2 sigur á Norwich City í ensku bikarkeppninni í gær. Þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Klopp tilkynnti að hann myndi stíga til hliðar í vor.

Næsti leikur Liverpool er gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

„Ekki hugsa meira um mig“

Jurgen Klopp stýrði Liverpool til sigurs í fyrsta leiknum síðan hann tilkynnti starfslok. 

Xabi Alonso tjáir sig um Liverpool orðróminn

Eftir óvæntu fréttirnar um að Jürgen Klopp var að hætta sem knattspyrnustjóri Liverpool í vor þá hefur Spánverjinn Xabi Alonso verið orðaður við starfið.

Hver tekur við Liverpool af Klopp?

Þau stórtíðindi bárust í dag að Jürgen Klopp hefði ákveðið að hætta með Liverpool eftir tímabilið. En hver tekur við Rauða hernum af þeim þýska? Vísir fer yfir nokkra kosti í stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×