Enski boltinn

„Klopp er pabbi allrar borgarinnar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fer yfir málin með Curtis Jones eftir einn af leikjum Liverpool liðsins í vetur.
Jürgen Klopp fer yfir málin með Curtis Jones eftir einn af leikjum Liverpool liðsins í vetur. Getty/Andrew Powell

Curtis Jones, leikmaður Liverpool, segir það sorglegar fréttir að Jürgen Klopp sé að hætta með liðið en Liverpool vann 5-2 sigur á Norwich City í ensku bikarkeppninni í gær í fyrsta leiknum eftir tilkynningu Þjóðverjans.

Jones skoraði eitt markanna en hin gerðu þeir Darwin Núnez, Diogo Jota, Virgil van Dijk og Ryan Gravenberch.

Jones hefur komið mjög sterkur inn hjá Klopp á þessu tímabili. Hann segir að sjokkið yfir fréttunum af stjóranum muni aðeins gera leikmenn Liverpool ákveðnari að kveðja hann með titlum.

„Hugarfarið hjá okkur er það sama og það eina sem hefur breyst er að núna viljum við ennþá meira vinna. Við settum okkur markmið í byrjun tímabilsins og það var að vinna fjóra titla. Við eigum enn möguleika á því,“ sagði Curtis Jones.

„Nú eftir þessar fréttir af Klopp þá erum við enn hungraðri sem lið. Klopp er pabbi allrar borgarinnar og það er sorglegt að hann sé að hætta. Svona er samt bara staðan,“ sagði Jones.

„Þetta er hans ákvörðun. Við verðum að virða hana og halda áfram okkar ferðalagi“ sagði Jones.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×