Myndavélarnar voru á Taylor þegar hún fagnaði snertimörkum liðsins sem og þegar hún fór niður á völl til að óska kærastanum, innherjanum Travis Kelce, til hamingju með sigurinn.
Úr varð skemmtileg fagnaðarstund þar sem parið kysstist og faðmaðist fyrir framan allar myndavélarnar.
Travis Kelce hafði þarna átt enn stórleikinn og bætt við NFL-met sín en hann er nú sá leikmaður sem hefur gripið flesta bolta í sögu úrslitakeppninnar.
Úrslitaleikurinn fer ekki fram fyrr en eftir tvær vikur og þá er Taylor Swift upptekin við tónleikahald hinum megin á hnettinum. Eða hvað?
Bandarískir fjölmiðlar eru sannfærðir um það að Taylor Swift leiti allra leiða til að ná að skila sér til Las Vegas þar sem Super Bowl leikurinn er spilaður í ár.
Taylor Swift heldur fjóra tónleika í Tókýó í Japan í vikunni fyrir Super Bowl og sá síðasti af þeim fer fram laugardaginn 10. febrúar.
Swift á einkaflugvél og ætti því að geta flogið strax af stað eftir tónleikanna. Það mun taka tíu til tólf tíma að fljúga frá Tókýó til Las Vegas. Taylor græðir því á því að klukkan í Japan er fjórtán tímum á undan og því væri hún í raun að fljúga aftur í tímann færi hún þessa leið.
Hún gæti því náð að komast til Las Vegas löngu áður en leikurinn hefst.
Það er hins vegar mikið álag að halda fjóra tónleika í röð þar sem hún er hverju sinni meira en þrjá tíma upp á sviði. Swift verður því örugglega alveg búin á því eftir þessa tónleikahrinu.
Hvort hún sé tilbúin að leggja á sig þetta ferðalag fyrir kærastann verður að koma í ljós en bandarískir fjölmiðlar munu að minnsta kosti fylgjast vel með öllu saman.