Erlent

Heilaflaga Neuralink Musk grædd í fyrsta ein­stak­linginn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrsta markmið Neuralink verður að gera mönnum kleift að stjórna tölvubúnaði, til dæmis símum, með hugsuninni einni saman.
Fyrsta markmið Neuralink verður að gera mönnum kleift að stjórna tölvubúnaði, til dæmis símum, með hugsuninni einni saman. Getty/NurPhoto/Jonathan Raa

Auðjöfurinn og frumkvöðullinn Elon Musk hefur greint frá því að fyrirtæki hans Neuralink hafi nú í fyrsta sinn grætt þráðlausa tölvuflögu í heila manneskju.

Aðgerðin er sögð hafa gengið vel og flagan sent frá sér skilaboð um taugastarfsemi sjúklingsins.

Markmið Neuralink er að þróa tækni til að tengja mannsheilann við tölvur, meðal annars með það að markmiði að lækna flókna taugasjúkdóma. 

Eftirlitsyfirvöld í Bandaríkjunum gáfu grænt ljós á ígræðsluna í maí í fyrra, þegar þau lögðu blessun sína yfir sex ára verkefni þar sem róbóti verður notaður til að koma fyrir 64 þráðum, sem hver um sig er þynnri en mannshár, fyrir á svæði heilans sem stjórnar „ætluðum hreyfingum“.

Samkvæmt Neuralink gera þræðirnir flögunni kleift að safna og senda áfram upplýsingar um það hvernig viðkomandi einstaklingur hyggst hreyfa sig. 

Musk segir fyrstu vöru fyrirtækisins munu verða kallaða Telepathy en hún muni gera einstaklingum kleift að stjórna síma sínum eða fartölvu með hugsuninni einni saman. Fyrstu notendur tækninnar verði einstaklingar sem hafi misst hendur sínar.

Athafnamaðurinn hefur einnig vísað til vísindamannsins Stephen Hawking, sem þjáðist af taugahrörnunarsjúkdómi og notaði tölvu til að tjá sig. „Ímyndið ykkur ef Stephen Hawking hefði getað tjáð sig hraðar en hraðritari eða uppboðshaldari. Það er markmiðið.“

Neuralink verður í harðri samkeppni við önnur fyrirtæki sem ætla sér svipaða hluti og hafa þegar, og fyrir nokkuð löngu síðan, grætt tölvuflögur í mannsheila.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×