Erlent

Fimm hand­teknir í tengslum við líkfund í Mojave-eyðimörkinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrátt fyrir að kannabis sé löglegt í Kaliforníu er það enn selt á svörtum markaði til að komast undan skattlagningu.
Þrátt fyrir að kannabis sé löglegt í Kaliforníu er það enn selt á svörtum markaði til að komast undan skattlagningu. epa/Etienne Laurent

Lögregla í San Bernardino í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur handtekið fimm einstaklinga eftir að sex lík fundust á afskekktum stað í Mojave-eyðimörkinni.

Um var að ræða sex karlmenn sem höfðu verið skotnir til bana en einn þeirra virðist hafa hringt í neyðarnúmerið 911 áður en hann lést, sem varð til þess að líkin fundust við leit úr þyrlu.

Búið er að bera kennsl á fjóra af mönnunum sex.

Fjórir mannanna reyndust einnig hafa hlotið alvarlegan bruna en þess er ekki getið hvort það gerðist áður eða eftir að þeir voru skotnir. Fjögur líkanna fundust í þyrpingu nærri tveimur sundurskotnum bifreiðum. Eitt lík fannst inni í annarri bifreiðinni og annað skammt frá.

Lögregluyfirvöld í San Bernadino segist fullviss um að málið tengist viðskiptum með maríjúana en þrátt fyrir að kannabis hafi verið gert löglegt í Kaliforníu árið 2016 er enn umtalsverður svartur markaður með efnið til að forðast skattlagningu.

Lögregla telur víst að mennirnir fimm sem nú eru í haldi lögreglu hafi mætt til fundar við mennina sex og skotið þá til bana. Búið er að leggja hald á átta skotvopn, sem verða rannsökuð sem möguleg morðvopn.

Yfirvöld neituðu að svara því hvort atvikið tengdist gengjum eða fíkniefnahópum en sögðust telja um að ræða skipulagða glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×