Enski boltinn

Benítez segist vita af hverju Klopp er að hætta: „Ég þekki fólk í Liverpool“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rafa Benítez og Jürgen Klopp hafa báðir gert Liverpool að Evrópumeisturum.
Rafa Benítez og Jürgen Klopp hafa báðir gert Liverpool að Evrópumeisturum. getty/John Powell

Rafa Benítez, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, hefur gefið í skyn að hann viti meira um þá ákvörðun Jürgens Klopp að hætta hjá félaginu í vor en gefið hefur verið upp.

Á föstudaginn greindi Klopp frá því að hann myndi hætta sem stjóri Liverpool í vor. Hann sagði að hann væri að verða orkulaus. Klopp hefur stýrt Liverpool frá því í október 2015.

Þegar Benítez, sem stýrir Celta Vigo í dag, var spurður út í brotthvarf Klopps sagði hann að það væri kannski eitthvað meira á bak við ákvörðun Þjóðverjans að hætta hjá Liverpool.

„Ég bý að því að ég þekki fólk í Liverpool og já, ég veit hvernig þetta gerðist. Ég hef gott eitt að segja um Klopp því hann er vinur minn og samband okkar er gott. Hann hefur unnið ótrúlegt starf. Allt sem ég get sagt um Klopp og Liverpool er jákvætt,“ sagði Benítez.

„Ég veit sitthvað innan úr félaginu. Hann fer og gefur því tíma til að endurskipuleggja sig sem er mjög þýskt því þeir gera þetta með fyrirvara svo þetta komi ekki upp úr þurru. Vonandi gerir Liverpool vel núna og líka þegar annar stjóri kemur. Ég vona að félaginu gangi allt í haginn.“

Benítez stýrði Liverpool á árunum 2004-10. Undir hans stjórn varð liðið Evrópumeistari 2005 og bikarmeistari 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×