Fótbolti

Häcken í átta liða úr­slit og Chelsea vann stór­sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chelsea vann stórsigur er liðið tryggði sér sigur í D-riðli Meistaradeildar Evrópu.
Chelsea vann stórsigur er liðið tryggði sér sigur í D-riðli Meistaradeildar Evrópu. Franco Arland/Getty Images

Sænska félagið Häcken tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu er liðið vann 1-0 útisigur gegn Real Madrid í D-riðli í kvöld. Á sama tíma vann Chelsea 4-0 stórsigur gegn Paris FC á útivelli.

Chelsea hafði þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar og Real Madrid átti ekki möguleika að komast ofar en fjórða og neðsta sæti riðilsins. Það voru því aðeins Häcken og Paris FC sem höfðu að einhverju að keppa.

Ljóst var að Häcken þurfti sigur gegn Real Madrid til að gulltryggja sér sæti í átta liða úrslitum og það var Rasul Kafaji Rosa sem tryggði liðinu sigur með marki á 63. mínútu. Niðurstaðan því 1-0 sigur Häcken og liðið þar með á leið í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu á kostnað Paris FC sem situr eftir með sárt ennið.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Paris FC mátti liðið þola 4-0 tap á heimavelli gegn Chelsea. Fran Kirby kom gestunum yfir strax á tíundu mínútu áður en Mia Fishel tvöfaldaði forystu liðsins átta mínútum fyrir hálfleikshléið. Bæði mörkin voru skoruð eftir stoðsendingu frá Jelena Cankovic.

Norsku landsliðskonurnar Guro Reiten og Maren Mjelde bættu svo sínu markinu hvor við í síðari hálfleik og þar við sat. Chelsea endar því á toppi D-riðils með 14 stig, þremur stigum meira en Häcken sem hafnaði í öðru sæti. Paris FC nældi í sjö stig og endar í þriðja sæti, en Real Madrid rekur lestina með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×