Frá­bær byrjun á seinni hálf­leik dugði Totten­ham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Richarlison skoraði þriðja mark Tottenham í kvöld.
Richarlison skoraði þriðja mark Tottenham í kvöld. Vísir/Getty

Frábær byrjun Tottenham á síðari hálfleik tryggði liðinu 3-2 sigur á Brentford í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. James Maddison sneri aftur í lið Tottenham.

Það var ekki sérlega margt sem benti til þess að Tottenham myndi fá eitthvað út úr leiknum í kvöld gegn Brentford þegar fyrri hálfleikur var allur. Brentford leiddi 1-0 eftir mark Neil Maupay og Tottenham ekki verið upp á sitt besta.

Hlutirnir voru hins vegar fljótir að breytast. Á 48. mínútu skoraði Iyenoma Udogie og jafnaði metin og aðeins mínútu síðar kom Brennan Johnson Spurs í 2-1 en hann hafði komið inn sem varamaður í hálfleik ásamt Pierre Emile Hojberg.

Sjö mínútum eftir mark Johnson skoraði Richarlison síðan þriðja mark Tottenham og endurkoman fullkomnuð. Lið Brentford var úti á túni en þó ekki jafn mikið og markaskorarinn Udogie sem færði Ivan Toney mark á silfurfati á 67. mínútu.

Udogie sendi þá boltann til baka á Guglielmo Vicario en sá ekki að Toney hafði ekki nennt að hlaupa til baka. Boltinn fór beint á Toney sem tók við boltanum, sneri sér við og skoraði framhjá Vicario.

Á lokamínútuum leiksins pressaði Brentford töluvert. Í uppbótartíma átti Shandon Baptiste skot sem Vicario náði að slá yfir en nær komst lið Brentford ekki og Tottenham fagnaði 3-2 sigri.

Hákon Rafn Valdimarsson var ekki í leikmannahópi Brentford en hann gekk á dögunum til liðs við enska félagið frá Elfsborg í Svíþjóð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira