Enski boltinn

Skaut á hermikrákuna Maupay: „Hefur ekki skorað nógu mörk til að vera með eigið fagn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neal Maupay fagnaði eins og James Maddison eftir að hafa komið Brentford yfir gegn Tottenham.
Neal Maupay fagnaði eins og James Maddison eftir að hafa komið Brentford yfir gegn Tottenham. getty/Alex Pantling

James Maddison skaut hressilega á Neal Maupay eftir sigur Tottenham á Brentford, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Maupay kom Brentford yfir eftir stundarfjórðung. Hann fagnaði með því að þykjast kasta pílu, eins og Maddison gerir venjulega þegar hann skorar. Enski landsliðsmaðurinn var ekki hrifinn af fagni Frakkans og lét hann heyra það eftir leikinn.

„Hann hefur ekki skorað nógu mörg mörk til að vera með sitt eigið fagn. Hann stal mínu. En þetta endaði vel fyrir okkur,“ sagði Maddison sem sneri aftur í lið Spurs eftir að hafa verið frá í nokkrar vikur vegna meiðsla.

Maupay lét þó ekki deigann síga og svaraði fyrir sig á Instagram. „Svekktur að við höfum ekki unnið. Hef skorað meira og fallið sjaldnar á ferlinum en James Maddison. Við reynum aftur á mánudaginn,“ skrifaði franski framherjinn sem sneri aftur til Brentford á láni frá Everton í haust.

Sem fyrr sagði komst Brentford yfir í leiknum í gær. Tottenham skoraði svo þrjú mörk á átta mínútum í upphafi seinni hálfleiks áður en Ivan Toney minnkaði muninn fyrir Brentford. Lokatölur 3-2, Spurs í vil.

Tottenham er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Brentford í því fimmtánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×