Formúla 1

Ferrari stað­festir komu Hamilton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lewis Hamilton færir sig yfir til Ferrari eftir komandi tímabil.
Lewis Hamilton færir sig yfir til Ferrari eftir komandi tímabil. Amin Jamali/Getty Images

Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, er á förum frá Mercedes eftir ellefu ára samstarf með liðinu.

Fyrr í dag fóru að heyrast óvæntar fréttir þess efnis að Lewis Hamilton væri að öllum líkindum á förum frá Mercedes til Ferrari. Nú hefur Mercedes-liðið staðfest að komandi tímabil verði hans síðasta með liðinu.

Þá hefur Ferrari-liðið einnig sent frá sér tilkynningu þess efnis að Hamilton sé væntanlegur til liðsins árið 2025.

Í tilkynningu Mercedes kemur fram að Hamilton hafi ákveðið að nýta sér ákvæði í samningi sínum og segja honum upp að komandi tímabili loknu. Hamilton hóf feril sinn í Formúlu 1 árið 2007, en hefur keyrt fyrir Mercedes frá árinu 2013.

Á ferlinum hefur Hamilton sjö sinnum orðið heimsmeistari (2008, 2014, 2015, 2017, 2018, 2019 og 2020) og er hann sá ökumaður sem hefur unnið flestar keppnir í sögunni, eða 103 talsins í 332 tilraunum.

„Ég hef átt mögnuð ellefu ár með þessu liði og ég er svo stoltur af því sem við höfum afrekað saman,“ sagði Hamilton í tilkynningu Mercedes.

„Mercedes hefur verið hluti af mínu lífi síðan ég var 13 ára gamall. Þetta er staðurinn þar sem ég hef alist upp, þannig að ákvörðunin um að fara er ein sú erfiðasta sem ég hef tekið á ævinni. En þetta er rétt tímasetning fyrir mig að taka þetta skref og ég er spenntur að takast á við nýja áskorun. Ég verð ávalt þakklátur fyrir þann ótrúlega stuðning sem ég hef fengið frá Mercedes-fjölskyldunni, sérstaklega vináttuna og leiðtogahæfileikana frá Toto [Wolff] og ég vil enda þetta vel. Ég er hundrað prósent ákveðinn í að gefa mig allann í þetta tímabil og að gera síðasta árið mitt hjá liðinu eftirminnilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×