Enski boltinn

Sá sem talað var um í klefa Man. Utd: „Eins og að mig sé að dreyma“

Sindri Sverrisson skrifar
Kobbie Mainoo var vel fagnað eftir að hann skoraði glæsilegt sigurmark Manchester United í gærkvöld.
Kobbie Mainoo var vel fagnað eftir að hann skoraði glæsilegt sigurmark Manchester United í gærkvöld. Getty/James Gill

Rasmus Höjlund segir það hafa verið mál manna í búningsklefa Manchester United síðasta sumar að í hópnum væri einstakt hæfileikabúnt, Kobbie Mainoo. Sá síðarnefndi átti í gær kvöld sem var draumi líkast.

Mainoo tryggði United ótrúlegan 4-3 sigur gegn Wolves á útivelli í gærkvöld, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Þrátt fyrir nokkra yfirburði United í leiknum tókst Wolves að jafna metin með tveimur mörkum seint í leiknum, og það seinna kom á fimmtu mínútu uppbótartíma. Þó reyndist enn tími fyrir Mainoo til að skora afar laglegt sigurmark.

Mainoo hafði áður skorað í bikarsigri á Newport County á sunnudaginn en þetta var fyrsta deildarmark þessa 18 ára miðjumanns fyrir United, sem hefur spilað átta deildarleiki í vetur.

„Draumur að rætast“

„Þetta er draumur að rætast. Það er svo erfitt að koma hingað, þeim hefur vegnað vel á heimavelli, en við urðum að vinna.

Ég er ekki enn búinn að jafna mig. Það er eins og að mig sé að dreyma, ef ég á að segja eins og er,“ sagði Mainoo við TNT Sports eftir sigurinn.

„Það að byrja að spila í úrvalsdeildinni, fyrir félagið mitt, er stórkostlegt. Núna reyni ég bara að ná fleiri svona leikjum í röð, vinna fleiri leiki og koma okkur á almennilegt skrið,“ sagði Mainoo.

Danski framherjinn Rasmus Höjlund sagði öllum hafa verið ljóst hve mikið byggi í Mainoo.

„Það voru allir strákarnir að tala um Kobbie Mainoo síðasta sumar, þegar ég kom hingað fyrst. Allir í búningsklefanum voru að tala um að hann væri hæfileikabúnt næstu kynslóðar,“ sagði Höjlund.

Fyrirliðinn Bruno Fernandes hrósaði miðjumanninum:

„Hann er mjög hæfileikaríkur. Ég hef sagt það áður, þegar hann spilaði með U18-liðinu fyrir 2-3 árum þá sagði ég vini mínum sem vildi sjá leiki liðsins frá Kobbie. Án þess þó að vita að hann yrði alveg þessi leikmaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×