Sport

Upp­selt á heims­leikana í Cross­Fit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir með íslenska fánann á heimsleikunum í crossfit.
Anníe Mist Þórisdóttir með íslenska fánann á heimsleikunum í crossfit. @anniethorisdottir

Heimsleikarnir í CrossFit fara fram á nýjum stað í ár og með nýju fyrirkomulagi. Það er ekki hægt að kvarta mikið yfir áhuganum á heimsleikunum þrátt fyrir róttækar breytingar.

CrossFit samtökin segja frá því að allir miðar á heimsleikana sem fóru í sölu séu nú uppseldir.

Að þessu sinni mun aðeins aðalkeppni heimsleikanna fara fram á sama stað en keppnir í hinum ýmsu aldursflokkum og fötlunarflokkum verða haldnar á öðrum stöðum og á öðrum tíma.

Heimsmeistarakeppni CrossFit íþróttarinnar 2024 verður haldin í Fort Worth í Texas fylki en hefur síðustu ár verið haldin í Madison í Wisconsin fylki.

Þarna verða bara krýndir heimsmeistarar karla og kvenna sem og heimsmeistarar liða.

„Spenningurinn í samfélaginu er jafnmikill og hjá okkur hjá CrossFit samtökunum sem sést á því að allir miðar í boði í Dickies Arena í Fort Worth eru núna uppseldir. Það er mjög gaman að fá svona góðar móttökur frá vinum okkar í Texas. Það að miðarnir seljast svona hratt bætir enn frekar við meðbyrinn sem við vorum þegar með í fylkinu,“ sagði Dave Castro, framkvæmdastjóri íþrótta- og kennslumála hjá CrossFit samtökunum.

Það eru miðar eftir en þeir eru hugsaðir fyrir þá fólk í kringum þá keppendur sem tryggja sér sæti á heimsleikunum.

Undankeppni heimsleikanna fer af stað með keppni í CrossFit Open en síðan tekur við keppni í fjórðungsúrslitum og undanúrslitum áður en í ljós kemur hvaða íþróttafólk fær að keppa á heimsleikunum í Fort Worth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×