Enski boltinn

Höjlund sló met sem Ronaldo átti

Sindri Sverrisson skrifar
Marcus Rashford og Luke Shaw áttu heiðurinn að undirbúningi marksins sem að Rasmus Höjlund skoraði.
Marcus Rashford og Luke Shaw áttu heiðurinn að undirbúningi marksins sem að Rasmus Höjlund skoraði. Getty/Catherine Ivill

Danski framherjinn Rasmus Höjlund bætti í gær met hjá Manchester United sem áður var í eigu Cristiano Ronaldo.

Höjlund lagði upp fyrsta mark United í 4-3 sigrinum gegn Wolves, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær, og skoraði svo sjálfur skömmu síðar.

Þar með hefur Höjlund bæði skorað og lagt upp mark í tveimur deildarleikjum í röð fyrir United, og Daninn ungi virðist orðinn heitur eftir að hafa beðið lengi eftir fyrsta deildarmarki sínu fyrir félagið.

Höjlund fagnar 21 árs afmæli á sunnudaginn, þegar United tekur á móti West Ham. Það gerir hann að yngsta leikmanninum í sögu United til að skora og leggja upp mark í tveimur leikjum í röð, en metið var áður í eigu Ronaldo.

Höjlund er annar af aðeins tveimur leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni sem hafa skorað og lagt upp mark í tveimur leikjum í röð, samkvæmt Squawka. Hinn er Bryan Mbeumo hjá Brentford.

Höjlund hefur nú skorað þrjú deildarmörk á leiktíðinni en það fyrsta kom á öðrum degi jóla, í 3-2 sigri gegn Aston Villa. Hann skoraði svo og lagði upp mark í 2-2 jafntefli við Tottenham í síðasta mánuði áður en hann endurtók leikinn í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×