Það var lítið sem gat skilið liðin að í fyrri hálfleik og skiptust þau á að hafa forystuna. Það var því alveg við hæfi að staðan var jöfn, 11-11, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik höfðu Framarar yfirhöndina og liðið náði fljótt þriggja marka forskoti. ÍR-ingar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu metin í 19-19 þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.
Heimakonur reyndust þó sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum eins marks sigur, 24-23. Alfa Brá Hagalín var atkvæðamest í liði Fram með átta mörk og Kristrún Steinþórsdóttir skoraði fimm fyrir liðið.
Fram situr í þriðja sæti Olís-deildarinnar með 22 stig eftir 16 leiki, sex stigum á eftir toppliði Vals. ÍR-ingar sitja hins vegar í fimmta sæti með 14 stig.