Swift hlaut verðlaunin fyrir plötuna Midnights, en hún hafði áður verið jöfn þeim Stevie Wonder, Paul Simon og Frank Sinatra með samtals þrenn verðlaun fyrir plötu ársins.
Swift tók við verðlaununum úr hendi söngkonunnar Celine Dion sem mætti óvænt eftir að hafa haldið sig fjarri sviðsljósinu í kjölfar þess að hafa greinst með sjálfsónæmissjúkdóm sem á ensku kallast stiff person syndrome.
Fyrr um kvöldið hafði söngkonan Laufey Lín tekið við verðlaunum í flokki hefðbundinnar popptónlistar, fyrir breiðskífu sína Bewitched.
Grammy-verðlaunahátíðin fór fram í Crypto-höllinni í Los Angeles í 66. skipti. Tónlistarkonur voru sérstaklega áberandi á hátíðinni í gær þar sem Miley Cyrus hlaut verðlaun fyrir smáskífu ársins fyrir lagið Flowers og þá hlaut Billie Eilish verðlaunin í flokknum „Lag ársins“ fyrir lagið What Was I Made For? úr kvikmyndinni Barbie.
Bandaríska söngkonan Victoria Monét hlaut verðlaunin fyrir Nýliði ársins og þá unnu tónlistarkonurnar SZA og sveitin Boygenius einnig til verðlauna á hátíðinni.

Þá vann rapparinn Killer Mike til þrennra verðlauna í flokkum rapptónlistar. Það varpaði þó skugga á kvöldið hjá honum að lögregla þurfti að hafa afskipti af honum vegna líkamsárásar baksviðs.
Auk Laufeyjar var Ólafur Arnalds tilnefndur fyrir plötu sína Some Kind of Peace í flokki nýaldartónlistar.
Söngkonurnar Tracy Chapman og Joni Mitchell voru í hópi þeirra tónlistarmanna sem trópu upp og tóku lagið á milli verðlaunaafhendinga.