Lífið

Eiga á fjórða hundrað bíla í Hvera­gerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hjónin Sigurgeir Ingimundarson og Ingibjörg Sigmarsdóttir, sem eiga glæsilegt bílasafn og nota það, sem stofustáss í nokkrum skápum heima hjá sér í Hveragerði.
Hjónin Sigurgeir Ingimundarson og Ingibjörg Sigmarsdóttir, sem eiga glæsilegt bílasafn og nota það, sem stofustáss í nokkrum skápum heima hjá sér í Hveragerði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eitt glæsilegast bílasafn landsins er í eigu hjóna í Hveragerði, sem eiga nú tæplega fjögur hundruð bíla, sem eru stofustáss heimilisins. Allir bílarnir eru merktir með heiti þeirra og öðrum gagnlegum upplýsingum.

Í einu húsinu við Heiðmörkina í Hveragerði búa þau Sigurgeir Ingimundarson og Ingibjörg Sigmarsdóttir, sem hafa safnað bílum frá 2012. Nokkrir skápar inn í stofu hjá þeim eru fullir af allskonar glæsilegum bílum, sem þau hafa keypt eða fengið gefins. Þarna má sjá marga gullmola.

„Þetta eru aðallega Fordar, það er mikið af þeim. Við eigum á fjórða hundruð bíla og erum enn að safna þó að við séum ekki að panta mikið að utan því það er orðið svo rosalega dýrt,” segir Sigurgeir.

Og Ingibjörg hefur ekki síður áhuga á bílunum og söfnun þeirra. Hún segir áhugamál þeirra hjóna óvenjulegt.

„Jú, sérstaklega ef hjónin eru í þessu bæði, þá er þetta það en þetta er skemmtilegt, það er svo gaman að eiga fallega bíla og geta horft á þá”, segir hún hlæjandi.

Allir bílarnir eru merktir, sem Ingibjörg á heiðurinn af og hún passar að þurrka af þeim reglulega og halda þeim fínum eð aðstoð Sigurgeirs. Og hjónin safna líka líkönum af skútum, sem vekja líka athygli á heimilinu.

Nokkrir skápar fullum af bílum prýða heimili þeirra Sigurgeirs og Ingibjargar í Hveragerði.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað segja gestir þeirra þegar þeir sjá bílasafnið?

„Flott, glæsilegt safn hjá ykkur, gaman að sjá eitthvað svona,” segir Ingibjörg.

Og Ingibjörg segir að ef einhver lumi á fallegum bílum þá megi alltaf hafa samband.

Sjálf á hún sér uppáhalds bíl.

„Já, það er Skodi árgerð 1934, hann er svakalega fallegur.”

Þegar safnið er skoðað nánar má sjá allskonar þekkta bíla á árum áður hér á Íslandi, eins og Lödu sport, Traband og bjöllu 1967 árgerð svo eitthvað sé nefnt.

Mikið af glæsilegum og fallegum bílum eru safni þeirra hjóna eins og þessir þrír.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×