Fótbolti

Segist hafa stuðning stjórnarinnar: „Erum öll í þessu saman“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauricio Pochettino og lærisveinar hans í Chelsea hafa ekki átt góðu gengi að fagna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Mauricio Pochettino og lærisveinar hans í Chelsea hafa ekki átt góðu gengi að fagna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Richard Heathcote/Getty Images

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, segist hafa fengið jákvæð skilaboð frá eigendum og stjórnarmeðlimum félagsins þrátt fyrir dræmt gengi liðsins undanfarið.

Chelsea féll niður í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 4-2 tap gegn Wolves á heimavelli síðastliðinn sunnudag og hefur liðið nú tapað tveimur deildarleikjum í röð. Margir stuðningsmenn Chelsea hafa kallað eftir því að Pochettino verði látinn fara frá félaginu, en þjálfarinn segist njóta stuðnings ráðamanna innan félagsins.

„Mér líður eins og við séum öll í þessu saman og það er jákvætt,“ sagði Pochettino. „Ég er búinn að fá mjög jákvæð skilaboð frá eigendunum. Ég er að sjálfsögðu í góðum samskiptum við þá og yfirmann íþróttamála á hverjum degi,“ bætti Argentínumaðurinn við.

Gengi Chelsea hefur ekki verið upp á marga fiska síðan Todd Boehly keypti félagið í maí 2022 þrátt fyrir að miklum fjármunum hafi verið eytt í leikmannakaup. Alls hefur Chelsea keypt leikmenn fyrir meira en einn milljarð punda (174 milljarða króna) síðan Boehly tók við stjórnartaumunum, en liðið hefur aðeins unnið níu af 23 deildarleikjum á yfirstandandi tímabili.

Þessi mikla eyðsla félagsins undanfarið gæti þó verið ástæðan fyrir því að Pochettino er enn í starfi sem stjóri Chelsea, en eins og greint var frá hér á Vísi fyrr í dag gæti það reynst Chelsea dýrt að reka Pochettino. Ekki bara í milljónum talið heldur gæti liðið einnig tapað stigum á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×