Haley var eina „stóra“ nafnið á kjörseðlinum þegar gengið var til atkvæðagreiðslunnar en tapaði fyrir valmöguleikanum „Enginn af þessum frambjóðendum“.
Til að gæta sanngirni ber að geta þess að Haley hafði sig ekkert í frammi í Nevada í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og sagði niðurstöðuna í ríkinu fyrirfram ákveðna Donald Trump í hag.
Nafn hans var þó ekki að finna á kjörseðlinum.
En hvernig má það vera?
Jú, málum er þannig háttað í Nevada í dag að árið 2021 voru samþykkt lög í ríkinu þar sem ákveðið var að skipta út svokölluðum valfundum (e. caucus) fyrir hefðbundna atkvæðagreiðslu. Þetta fór fyrir brjóstið á Repúblikanaflokknum í ríkinu, sem hefur um langt skeið haldið valfundi.
Flokkurinn ákvað þannig að halda sig við valfundi fyrir forsetakosningarnar og haga reglunum þannig að forsetaefni flokksins gætu valið um að taka þátt í atkvæðagreiðslunni á vegum Nevada ríkis eða valfundum flokksins.
Sá galli er hins vegar á fyrirkomulaginu að flokkurinn ákvað einnig að aðeins niðurstöður valfundanna réði því hvaða frambjóðandi fengi fulltrúa á landsþingi flokksins, þar sem forsetaefnið er útnefnt.
Þrátt fyrir þetta valdi Haley að vera á kjörseðlum í atkvæðagreiðslunni, á meðan Trump verður meðal frambjóðenda á valfundunum. Aðeins hann á þannig möguleika á því að tryggja sér kjörmenn.
Fyrirkomulagið hefur verið harðlega gagnrýnt, enda flókið og furðulegt, og jafnvel ríkisstjóri Nevada, sem sjálfur er Repúblikani, sagði í viðtali á síðasta ári að það væri skaðlegt fyrir frambjóðendur flokksins og myndi fæla kjósendur frá þátttöku.