Bæði liðin í Reykjanesbæ áttu fyrir höndum leik í Subway-deild karla í kvöld. Keflavík átti að mæta Hetti og Njarðvík að mæta Breiðabliki. Þessum leikjum hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma.
Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ, segir þetta gert vegna heitavatnsskorts í Reykjanesbæ. Ljóst sé að fljótt yrði mjög kalt í íþróttahúsunum í kvöld og að enginn kæmist í sturtu eftir leik.
Ákvörðun um hvenær leikirnir fara fram verður tekin þegar málin skýrast varðandi heitt vatn á Reykjanesi.
Þrír leikir eru þó enn á dagskrá í kvöld í Subway-deild karla. Valur mætir Haukum, Þór Þorlákshöfn tekur á móti Grindavík, og Hamar mætir Álftanesi. Sextán umferðum af 22 er lokið í deildinni og því farið að styttast í að úrslitakeppnin hefjist.
Leikirnir þrír í kvöld verða allir í beinni útsendingu, á Stöð 2 Sport og Subway-deildarrásunum. Þátturinn Skiptiborðið fellur hins vegar niður að þessu sinni.