Þetta kemur fram í tilkynningu frá stöðinni. Fimm ár eru síðan síðasta þáttaröð, Suður-Ameríski Draumurinn fór í loftið en Þóra Clausen dagskrárstjóri Stöðvar 2 segir seríurnar meðal þess sem fær mest áhorf á Stöð 2 og streymisveitunni Stöð 2+.
Áður hafa verið framleiddar þáttaraðirnar Ameríski Draumurinn, Evrópski Draumurinn, Asíski Draumurinn og Suður Ameríski Draumurinn en í þessari nýjustu þáttaröð segir Þóra að allur heimurinn sé undir þegar kemur að áfangastöðum.
„Þættirnir fara í tökur í september og verða sýndir í byrjun árs 2025 og við erum gríðarlega spennt að sjá strákana aftur samankomna á skjánum. Á næstunni hefst undirbúningsvinnan í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Atlavík og á ég von á að þessi þáttaröð muni toppa það sem á undan er komið,“ bætir Þóra við.