Innlent

Segir fram­ferði SA til skammar

Rafn Ágúst Ragnarsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Vilhjálmur Birgisson segir Samtök atvinnulífsins þurfa að svara fyrir framferði sitt.
Vilhjálmur Birgisson segir Samtök atvinnulífsins þurfa að svara fyrir framferði sitt. Stöð 2

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir framferði Samtaka atvinnulífsins til skammar. Breiðfylking ASÍ sleit kjaraviðræðum í dag og óljóst er um framhaldið.

Hann segir að viðræðurnar hafi strandað á svokölluðum forsenduákvæðum og að í raun hafi níutíu prósent samningsins þegar verið afgreiddur.

„Því miður hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað þessu sem ég harma. Einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að leggja það á launafólk að það gangi frá afar hófstilltum kjarasamningi til fjögurra ára án þess að hafa einhverjar slíkar varnir,“ segir Vilhjálmur.

„Samtök atvinnulífsins skulda aðildarfyrirtækjum sínum svör við þessu framferði sínu núna síðustu klukkustundir og ekki bara fyrirtækjunum heldur líka íslensku þjóðinni. Vegna þess að við höfum lagt ótrúlega vinnu á okkur og verið tilbúin til að ganga frá samningi sem er svo hófstilltur að hálfa væri haugur,“ bætir Vilhjálmur við.

Vilhjálmur segist hafa viljað að stjórnvöld hefðu svarað sér fyrr og betur en að hann kenni þeim ekki um hvernig nú er orðið.

„Ábyrgðin liggur hjá SA og þetta framferði þeirra gagnvart íslensku launafólki í ljósi þess hvað við vorum tilbúni að leggja á okkur er að mínum dómi til skammar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×