Innlent

Festist í póst­kassa

Árni Sæberg skrifar
Það getur verið varasamt að stinga höndunum inn í póstkassa.
Það getur verið varasamt að stinga höndunum inn í póstkassa. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst heldur óvenjulegt útkall í gærkvöldi. Þá hafði íbúi í miðbæ Reykjavíkur ætlað að spara sér að sækja lykla að póstkassa en orðið fyrir því óláni að festa hendurnar í póstkassanum.

Þetta segir í færslu slökkviliðsins á Facebook, þar sem segir að annað slagið berist „aðeins öðruvísi“ útköll líkt og það sem sinnt var í gær.

Slökkviliðsmenn hafi ekki átt í miklum vandræðum með að losa hendur íbúans úr póstkassanum. Hann hafi verið frelsinu feginn. Þá hefur íbúanum ekki þótt vandræði sín neyðarlegri en svo að hann veitti slökkviliðinu góðfúslegt leyfi til þess að birta mynd af höndunum í kassanum.

Annars heldur rólegt

Af öðrum útköllum segir frá því að tveimur útköllum hafi verið sinnt með dælubíl. Annað þeirra hafi verið vegna gaskúts sem hafði verið hent í ruslatunnu og lak gasi.

Boðanir fyrir sjúkrabifreiðar hafi verið 87 síðasta sólarhringinn en af þeim hafi 27 verið forgangsverkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×