Flugið hefst þann 26. júní í sumar og stendur yfir sumartíminn og út haustið, fram til 23. október. Til að byrja með er gert ráð fyrir einni ferð á viku, á miðvikudögum, og mun flugfélagið nota Dash 8-Q200 flugvélar sínar. Flugtíminn á milli á þeirri tegund er um tvær klukkustundir.

Það var raunar á Vestnorden-ferðakaupstefnunni í Reykjavík síðastliðið haust sem ráðamenn Air Greenland kynntu fyrst þessi áform sín. Þar lýstu þeir bjartsýni um að flugið myndi standa undir sér þrátt að hafa neyðst til að gefast upp við fyrri tilraun á árunum 2012 til 2014. Félagið bauð þá einnig upp á flug á þessari leið yfir sumarmánuði. Þá reyndust farþegar einfaldlega of fáir. Áður hafði reglubundið flug milli þessara staða verið stundað um tuttugu ára skeið fram til ársins 2001.
Flugfélag Íslands var fyrir sextán árum hvatt til þess að hefja flug milli Iqaluit og Nuuk í tengslum við áætlunarflug sitt til Grænlands. Þetta kom fram í viðtali fréttamanns Stöðvar 2 við ræðismann Danmerkur í Nunavut árið 2008 sem sjá má hér:
Flugið núna er afrakstur samstarfssamnings sem Grænland og Nunavut gerðu árið 2022 um að styrkja samstarf á milli íbúa svæðanna á sviði menningar, mennta, sjávarútvegs og grænnar orku. Forystumenn Air Greenland vonast jafnframt til að flugleiðin muni greiða leið að auknum samskiptum á sviði viðskipta, stjórnmála og menningarmála, að því er Sermitsiaq greindi frá.

Iqaluit, sem áður hét Frobisher Bay, er fjölmennasti bær Nunavut með um 7.500 íbúa. Flugvöllurinn þar er helsti tengivöllur til byggða Inúíta í norðurhéruðum Kanada, með áætlunarflug til fimmtán bæja og borga, þar á meðal til Montreal og Ottawa, höfuðborgar Kanada. Samstarfssamningur Air Greenland við kanadíska flugfélagið Canadian North auðveldar jafnframt Grænlendingum að nýta Iqaluit sem millilendingarstað í flugi frá Nuuk til helstu borga Kanada.
Flugbrautin í Iqaluit er 2.600 metra löng. Airbus-flugvélaframleiðandinn hefur nýtt hana til flugprófana í frosthörkum fyrir nýjar tegundir, þar á meðal fyrir Airbus A380 og A350 og síðast fyrir hina nýju A321-XLR.