Innlent

Sporthúsið býður í­búum að­gang að sturtu ó­keypis

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sporthúsinu í Reykjanesbæ hefur tekist að koma í gang nokkrum sturtum og bjóða íbúum á svæðinu aðgang að þeim endurgjaldslaust.
Sporthúsinu í Reykjanesbæ hefur tekist að koma í gang nokkrum sturtum og bjóða íbúum á svæðinu aðgang að þeim endurgjaldslaust. Sporthúsið

Sporthúsið í Reykjanesbæ hefur ákveðið að bjóða heitavatnslausum íbúum ókeypis í sturtu. Æfingaaðstaða þeirra er líka opin.

Í færslu sem þau birti á síðu sína á Facebook fyrr í dag segja þau að með samstilltu átaki hafi verið hægt að tengja nokkra aflgjafa sem gerir þeim kleift að hita húsið, keyra nokkrar sturtur og opna starfsemina.

Verkefnið hafi verið unnið í nánu samstarfi við HS Veitur, aðgerðarstjórn lögreglunnar á Suðurnesjum og Reykjanesbæ.

„Búið er að álagsmæla húsið hjá okkur í fullum afköstum og erum við enn talsvert innan þeirra marka sem HS Veitur hafa gefið okkur upp að veitukerfið á okkar svæði þoli. Við viljum ítreka sérstaklega að notkunin mun ekki bitna með nokkrum hætti á öðrum íbúum bæjarins. Að auki erum við með rúmlega 150 kw sem framleidd eru með olíu,“ stendur í færslunni.

Þau segja betur eiga eftir að koma í ljós hversu mörgum þau geti þjónað í einu en að ef ásóknin verði meiri en aðstæður ráða við munu þau reyna að auka afkastagetuna eða koma á legg einhvers konar skráningarferli.

„Við erum stolt að geta veitt íbúum Suðurnesja þessa þjónustu, sjáumst í Sporthúsinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×