Erlent

Kennedy biðst af­sökunar á Super Bowl-auglýsingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Robert F. Kennedy yngri vill verða næsti forseti Bandaríkjanna.
Robert F. Kennedy yngri vill verða næsti forseti Bandaríkjanna. Getty/Mario Tama

Robert F. Kennedy yngri hefur beðið fjölskyldu sína afsökunar á auglýsingu tengdri framboði hans til forseta Bandaríkjanna. Hluti af auglýsingu hans fór í að sýna andlit frænda hans heitins, John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Robert er bróðursonur forsetans fyrrverandi en faðir Roberts og alnafni var einnig forsetaframbjóðandi. Hann var myrtur í júní árið 1968 þegar hann var að leitast eftir því að verða frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum það ár. Fimm árum fyrr hafði John einnig verið myrtur en þá hafði hann verið forseti Bandaríkjanna í tæp þrjú ár. 

Auglýsingin, sem birtist í einu af fjölmörgum auglýsingahléum Super Bowl í nótt, vakti mikla athygli en um er að ræða þrjátíu sekúndna auglýsingu þar sem sjá má fjölda mynda af Robert yngri sjálfum, sem og fjölskyldumeðlimum hans, til að mynda af John F. Kennedy. 

Þetta reitti nokkra fjölskyldumeðlimi hans til mikillar reiði en hluti fjölskyldunnar vill ekkert með Robert hafa eftir að hann talaði opinberlega gegn bóluefnum og öðrum málefnum. Einn þeirra, Bobby Shriver, sonur systur Robert eldri og John F. Kennedy, birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann gagnrýndi frænda sinn fyrir auglýsinguna. 

„Frændi minn (Robert yngri) notaði andlit frænda okkar (John F. Kennedy) og móður minnar í Super Bowl-auglýsinguna sína. Henni hefði blöskrað lífshættulegu skoðanir hans á heilbrigðismálum,“ skrifaði Shriver á Twitter.

Vegna gagnrýninnar baðst Robert yngri afsökunar á auglýsingunni og á þeim sársauka sem hún gæti hafa valdið fjölskyldumeðlimum hans. Hann segir auglýsinguna hafa verið gerða af kosningasjóð án hans samþykkis. 

Kennedy er í sjálfstæðu framboði, það er að hann er ekki að sækjast eftir tilnefningu Demókrata- eða Repúblikanaflokksins. Þeim frambjóðendum vegnar sjaldnast vel. Sá sem hefur hlotið mesta fylgið sem sjálfstæður frambjóðandi er Theodore Roosevelt árið 1912 þegar hann fékk 27 prósent atkvæða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×