Innlent

Liggja undir feldi með til­boð ráð­herra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vinstri: Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.
Frá vinstri: Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst. Vísir

Stjórnir bæði Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst funda á næstu dögum um hvort taka eigi tilboði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskólaráðherra um að fá óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda. 

Þetta staðfesta bæði Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Bifrastar, í samtali við fréttastofu. 

„Við erum bara afar þakklát fyrir að geta mátað okkur við skólagjaldaleysi. Nemendur okkar borga skatta eins og nemendur í opinberu háskólunum og því mikið réttlætismál fyrir þá að við skoðum þetta tilboð alvarlega. Þetta hentar einnig háskólanum á Bifröst því við erum í sameiningarviðræðum við Háskólann á Akureyri. Fjarnám er mikið jafnréttismál. Í því eru vinnandi nemendur, nemendur með börn. Því er til mikils að vinna fyrir þá að þurfa ekki að skuldsetja sig,“ segir Margrét. 

Stjórn skólans fundar á föstudag og þykir henni líklegt að ákvörðunin verði kynnt um helgina. Sömuleiðis fundar stjórn HR á næstu dögum.

Nú þegar hefur einn sjálfstætt starfandi skóli, Listaháskóli Íslands, samþykkt tilboð ráðherra og munu skólagjöld þar falla niður á næsta skólaári. Nemendur greiða einungis 75 þúsund krónur í skráningargjald við upphaf skólaárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×