Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Selfoss 21-18 | Víkingar halda sér á lífi í fallbaráttunni Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 18. febrúar 2024 18:12 Fram - Víkingur Olís deild karla haust 2023 vísir/Diego Víkingur vann gríðarlega mikilvægan þriggja marka sigur er liðið tók á móti Selfossi í fallbaráttuslag Olís-deildarinnar, 21-18. Það fór líklega ekki framhjá neinum sem fylgdust með þessum leik að mikið var undir og spennustigið var hátt. Nokkuð var um tapaða bolta hjá báðum liðum, en þó ekki of mikið, og ljóst að bæði lið mættu vel stemmd til leiks. Liðin skiptust á að skora, en það voru gestirnir frá Selfossi sem höfðu yfirhöndina framan af leik. Selfyssingar náðu þó aldrei meira en tveggja marka forskoti fyrir hlé, en Víkingar skoruðu þrjú af seinustu fjórum mörkum hálfleiksins og staðan var því jöfn, 11-11, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja. Heimamenn tóku svo öll völd í síðari hálfleik þar sem gestirnir frá Selfossi voru líklega sjálfum sér verstir. Þeir vínrauðu töpuðu hverjum boltanum á fætur öðrum og Víkingar gengu á lagið. Víkingsliðið skoraði fyrstu sjö mörk seinni hálfleiksins og byggði þar með upp gott forskot. Selfyssingar náðu ekki að skora eftir hálfleikshléið fyrr en að 15 mínútur og 55 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik og holan því orðin ansi djúp sem gestirnir grófu sér. Selfossliðið vaknaði þó til lífsins og saxaði vel á forskot Víkinga. Jón Þórarinn Þorsetinsson átti frábæra innkomu í mark Selfyssinga sem gerði það að verkum að gestirnir áttu enn séns. Eftir góðan sprett gestanna var munurinn kominn niður í tvö mörk í stöðunni 20-18 þegar enn voru tvær og hálf mínúta eftir. Þrátt fyrir meðbyr Selfyssinga tókst þeim ekki að koma sér nær og niðurstaðan varð að lokum þriggja marka sigur Víkings, 21-18. Víkingar sitja enn í næst neðsta sæti Olís-deildarinnar, nú með átta stig eftir 16 leiki og aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Selfyssingar sitja hins vegar sem fastast á botninum með sex stig. Af hverju vann Víkingur? Víkingar náðu að stilla spennustigið betur en Selfyssingar og héldu haus nánast allan leikinn. Á sama tíma hrundi allt hjá Selfyssingum á stórum kafla í seinni hálfleik þar sem þeir grófu sér djúpa holu sem þeir komust ekki upp úr. Hverjir stóðu upp úr? Markmenn liðanna eiga líklega stærsta hrósið skilið eftir þennan leik. Daníel Andri Valtýsson varði tíu skot í marki Víkinga og endaði með 36 prósent hlutfallsvörslu. Í marki Selfyssinga varði Vilius Rasimas ellefu skot áður en Jón Þórarinn Þorsteinsson tók við og varði fimm af þeim átta skotum sem hann fékk á sig, þar af eitt víti. Hvað gekk illa? Eins og við var að búast var spennustigið hátt í leik dagsins og því fylgir oft tapaðir boltar. Selfyssingar fóru mun verr út úr því og tapaðir boltar trekk í trekk í seinni hálfleik gerðu það að verkum að liðið skoraði ekki í rúmlega korter. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga útileiki í næstu umferð. Selfyssingar sækja Fram heim á fimmtudaginn og Víkingar heimsækja Gróttu degi síðar. Andri: Seinni hálfleikur var ógeðslega flottur Andri Berg Haraldsson, þjálfari Víkings (t.h.).Vísir/Sigurjón Andri Berg Haraldsson, þjálfari Víkings, var eðlilega í skýjunum eftir þennan mikilvæga sigur í dag. „Þetta var náttúrulega mikilvægur leikur fyrir bæði lið og þetta var jafnt framan af, en mér fannst þeir samt hafa svona ákveðið forskot í fyrri hálfleik,“ sagði Andri í leikslok. „Við töluðum vel saman í hálfleik og það voru nokkur atriði varnarlega sem við ætluðum að laga og það gekk fullkomlega upp, enda skoruðu þeir ekki fyrsta markið fyrr en eftir 16-17 mínútur. Seinni hálfleikur var ógeðslega flottur. Við hikstuðum aðeins sóknarlega í lokin, en vinnslan varnarlega og markvarslan var geðveik. Það var rosalegur vilji og menn slökuðu ekki á í eina sekúndu. Þetta var akkúrat það sem við vorum búnir að ræða fyrir leikinn að menn gætu ekki slakað á og þeir gerðu það svo sannarlega ekki.“ Þá segir Andri að hluti af því að hafa náð að vinna þennan leik hafi verið að ná að stilla spennustigið rétt. „Meðal annars snérist þetta um það. Við vorum fyrir leikinn að einbeita okkur að okkur og hvernig við ætluðum að spila. Að tala um fall eða ekki - það er bara einn leikur í einu og það var bara þessi leikur núna.“ Eins og fram hefur komið voru Selfyssingar líklega sjálfum sér verstir í leik dagsins og tapaðir boltar í upphafi seinni hálfleiks fóru langleiðina með að klára þennan leik fyrir Víkinga. Andri segir þó að sínir menn hafi oft og tíðum þvingað Selfyssinga í erfiðar aðgerðir sem hafi valdið umræddum töpuðum boltum. „Við vorum búnir að kortleggja þá mjög vel og hvernig þeir eru að spila. Þeir spiluðu þannig í seinni hálfleik sérstaklega þannig að leikplanið sem við settum upp í seinni hálfleik gekk upp.“ Víkingar eru nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti og liðið því sannarlega á lífi fyrir seinustu sex umferðir tímabilsins. „Það er nóg eftir og var það líka fyrir þennan leik, sama hvernig hann hefði farið. Það er bara einn leikur í einu og ef við getum spilað svona vörn og fáum markvörslu með og erum skynsamir sóknarlega þá er ég bjartsýnn bara á framhaldið,“ sagði Andri að lokum. Þórir: Erum bara eins góðir og við mætum til leiks Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga.Vísir/Diego Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var eðlilega súr eftir tap dagsins. „Það er aldrei góð tilfinning að tapa og sérstaklega í svona mikilvægum leik eins og við vissum að þetta yrði,“ sagði Þórir í leikslok. „Það sama á við um Víkingana sem mættu hérna og voru að berjast fyrir lífi sínu og höfðu betur í dag. Þeir voru bara klárari í þetta.“ Þórir hafði svo fáar skýringar á því hvað gerðist í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar skoruðu ekki mark fyrstu 15 mínúturnar. „Spennustigið var bara rosalega hátt og við ætluðum að gera of mikið á fyrstu mínútunum og reyna að sparka eitthvað frá okkur. Það endaði með fjöldanum öllum af töpuðum boltum sem gáfu þeim hraðaupphlaup og þar náðu þeir þessu forskoti sem við náðum aðeins að éta til baka, en það var bara of stór biti fyrir okkur.“ Hann segir að einfaldlega hafi verið of seint í rassinn gripið. „Við hefðum þurft að spila svona þokkalegan sóknarleik. Vörnin og markvarslan var bara fín heilt yfir. Við fáum bara á okkur 21 mark í leiknum og við erum með fína hlutfallsmarkvörslu þannig við getum ekki kvartað yfir því.“ „Sóknarlega erum við bara enn og aftur að klikka á færum og tapa boltum. Það er bara ekki í boði.“ Selfyssingar sitja enn á botni deildarinnar með sex stig þegar sex umferðir eru eftir. Liðið er þremur stigum frá öruggu sæti og ljóst að ýmislegt þarf að breytast og batna ef liðið ætlar að halda sér uppi. „Ef maður væri bara með lausnina á því hvað við þurfum að gera. Við þurfum kannski bara að koma rólegri inn í þessa leiki. Við erum kannski að setja of mikla pressu á okkur og við erum bara eins góðir og við mætum til leiks. Við höfum verið að klikka á allt of mörgum dauðafærum í leikjum þar sem höfum verið að spila ágætis sóknarleik. Þá eru kannski 10-15 dauðafæri sem liggja í stönginni eða markverðinum hinumegin.“ „Ef markmaðurinn í hinu liðinu er alltaf með 50 prósent markvörslu þá hljótum við að þurfa að kíkja eitthvað á okkar og hver inn í sig og allt það. Það hefur kannski verið okkar helsta vandamál að við höfum oft og tíðum fengið góðan sóknarleik og fín færi, en þá erum við bara alls ekki að nýta þau,“ sagði Þórir að lokum. Olís-deild karla Víkingur Reykjavík UMF Selfoss
Víkingur vann gríðarlega mikilvægan þriggja marka sigur er liðið tók á móti Selfossi í fallbaráttuslag Olís-deildarinnar, 21-18. Það fór líklega ekki framhjá neinum sem fylgdust með þessum leik að mikið var undir og spennustigið var hátt. Nokkuð var um tapaða bolta hjá báðum liðum, en þó ekki of mikið, og ljóst að bæði lið mættu vel stemmd til leiks. Liðin skiptust á að skora, en það voru gestirnir frá Selfossi sem höfðu yfirhöndina framan af leik. Selfyssingar náðu þó aldrei meira en tveggja marka forskoti fyrir hlé, en Víkingar skoruðu þrjú af seinustu fjórum mörkum hálfleiksins og staðan var því jöfn, 11-11, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja. Heimamenn tóku svo öll völd í síðari hálfleik þar sem gestirnir frá Selfossi voru líklega sjálfum sér verstir. Þeir vínrauðu töpuðu hverjum boltanum á fætur öðrum og Víkingar gengu á lagið. Víkingsliðið skoraði fyrstu sjö mörk seinni hálfleiksins og byggði þar með upp gott forskot. Selfyssingar náðu ekki að skora eftir hálfleikshléið fyrr en að 15 mínútur og 55 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik og holan því orðin ansi djúp sem gestirnir grófu sér. Selfossliðið vaknaði þó til lífsins og saxaði vel á forskot Víkinga. Jón Þórarinn Þorsetinsson átti frábæra innkomu í mark Selfyssinga sem gerði það að verkum að gestirnir áttu enn séns. Eftir góðan sprett gestanna var munurinn kominn niður í tvö mörk í stöðunni 20-18 þegar enn voru tvær og hálf mínúta eftir. Þrátt fyrir meðbyr Selfyssinga tókst þeim ekki að koma sér nær og niðurstaðan varð að lokum þriggja marka sigur Víkings, 21-18. Víkingar sitja enn í næst neðsta sæti Olís-deildarinnar, nú með átta stig eftir 16 leiki og aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Selfyssingar sitja hins vegar sem fastast á botninum með sex stig. Af hverju vann Víkingur? Víkingar náðu að stilla spennustigið betur en Selfyssingar og héldu haus nánast allan leikinn. Á sama tíma hrundi allt hjá Selfyssingum á stórum kafla í seinni hálfleik þar sem þeir grófu sér djúpa holu sem þeir komust ekki upp úr. Hverjir stóðu upp úr? Markmenn liðanna eiga líklega stærsta hrósið skilið eftir þennan leik. Daníel Andri Valtýsson varði tíu skot í marki Víkinga og endaði með 36 prósent hlutfallsvörslu. Í marki Selfyssinga varði Vilius Rasimas ellefu skot áður en Jón Þórarinn Þorsteinsson tók við og varði fimm af þeim átta skotum sem hann fékk á sig, þar af eitt víti. Hvað gekk illa? Eins og við var að búast var spennustigið hátt í leik dagsins og því fylgir oft tapaðir boltar. Selfyssingar fóru mun verr út úr því og tapaðir boltar trekk í trekk í seinni hálfleik gerðu það að verkum að liðið skoraði ekki í rúmlega korter. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga útileiki í næstu umferð. Selfyssingar sækja Fram heim á fimmtudaginn og Víkingar heimsækja Gróttu degi síðar. Andri: Seinni hálfleikur var ógeðslega flottur Andri Berg Haraldsson, þjálfari Víkings (t.h.).Vísir/Sigurjón Andri Berg Haraldsson, þjálfari Víkings, var eðlilega í skýjunum eftir þennan mikilvæga sigur í dag. „Þetta var náttúrulega mikilvægur leikur fyrir bæði lið og þetta var jafnt framan af, en mér fannst þeir samt hafa svona ákveðið forskot í fyrri hálfleik,“ sagði Andri í leikslok. „Við töluðum vel saman í hálfleik og það voru nokkur atriði varnarlega sem við ætluðum að laga og það gekk fullkomlega upp, enda skoruðu þeir ekki fyrsta markið fyrr en eftir 16-17 mínútur. Seinni hálfleikur var ógeðslega flottur. Við hikstuðum aðeins sóknarlega í lokin, en vinnslan varnarlega og markvarslan var geðveik. Það var rosalegur vilji og menn slökuðu ekki á í eina sekúndu. Þetta var akkúrat það sem við vorum búnir að ræða fyrir leikinn að menn gætu ekki slakað á og þeir gerðu það svo sannarlega ekki.“ Þá segir Andri að hluti af því að hafa náð að vinna þennan leik hafi verið að ná að stilla spennustigið rétt. „Meðal annars snérist þetta um það. Við vorum fyrir leikinn að einbeita okkur að okkur og hvernig við ætluðum að spila. Að tala um fall eða ekki - það er bara einn leikur í einu og það var bara þessi leikur núna.“ Eins og fram hefur komið voru Selfyssingar líklega sjálfum sér verstir í leik dagsins og tapaðir boltar í upphafi seinni hálfleiks fóru langleiðina með að klára þennan leik fyrir Víkinga. Andri segir þó að sínir menn hafi oft og tíðum þvingað Selfyssinga í erfiðar aðgerðir sem hafi valdið umræddum töpuðum boltum. „Við vorum búnir að kortleggja þá mjög vel og hvernig þeir eru að spila. Þeir spiluðu þannig í seinni hálfleik sérstaklega þannig að leikplanið sem við settum upp í seinni hálfleik gekk upp.“ Víkingar eru nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti og liðið því sannarlega á lífi fyrir seinustu sex umferðir tímabilsins. „Það er nóg eftir og var það líka fyrir þennan leik, sama hvernig hann hefði farið. Það er bara einn leikur í einu og ef við getum spilað svona vörn og fáum markvörslu með og erum skynsamir sóknarlega þá er ég bjartsýnn bara á framhaldið,“ sagði Andri að lokum. Þórir: Erum bara eins góðir og við mætum til leiks Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga.Vísir/Diego Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var eðlilega súr eftir tap dagsins. „Það er aldrei góð tilfinning að tapa og sérstaklega í svona mikilvægum leik eins og við vissum að þetta yrði,“ sagði Þórir í leikslok. „Það sama á við um Víkingana sem mættu hérna og voru að berjast fyrir lífi sínu og höfðu betur í dag. Þeir voru bara klárari í þetta.“ Þórir hafði svo fáar skýringar á því hvað gerðist í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar skoruðu ekki mark fyrstu 15 mínúturnar. „Spennustigið var bara rosalega hátt og við ætluðum að gera of mikið á fyrstu mínútunum og reyna að sparka eitthvað frá okkur. Það endaði með fjöldanum öllum af töpuðum boltum sem gáfu þeim hraðaupphlaup og þar náðu þeir þessu forskoti sem við náðum aðeins að éta til baka, en það var bara of stór biti fyrir okkur.“ Hann segir að einfaldlega hafi verið of seint í rassinn gripið. „Við hefðum þurft að spila svona þokkalegan sóknarleik. Vörnin og markvarslan var bara fín heilt yfir. Við fáum bara á okkur 21 mark í leiknum og við erum með fína hlutfallsmarkvörslu þannig við getum ekki kvartað yfir því.“ „Sóknarlega erum við bara enn og aftur að klikka á færum og tapa boltum. Það er bara ekki í boði.“ Selfyssingar sitja enn á botni deildarinnar með sex stig þegar sex umferðir eru eftir. Liðið er þremur stigum frá öruggu sæti og ljóst að ýmislegt þarf að breytast og batna ef liðið ætlar að halda sér uppi. „Ef maður væri bara með lausnina á því hvað við þurfum að gera. Við þurfum kannski bara að koma rólegri inn í þessa leiki. Við erum kannski að setja of mikla pressu á okkur og við erum bara eins góðir og við mætum til leiks. Við höfum verið að klikka á allt of mörgum dauðafærum í leikjum þar sem höfum verið að spila ágætis sóknarleik. Þá eru kannski 10-15 dauðafæri sem liggja í stönginni eða markverðinum hinumegin.“ „Ef markmaðurinn í hinu liðinu er alltaf með 50 prósent markvörslu þá hljótum við að þurfa að kíkja eitthvað á okkar og hver inn í sig og allt það. Það hefur kannski verið okkar helsta vandamál að við höfum oft og tíðum fengið góðan sóknarleik og fín færi, en þá erum við bara alls ekki að nýta þau,“ sagði Þórir að lokum.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik