Erlent

Júlía Navalní segir að Pútín verði dreginn til á­byrgðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Júlía Navalní, eiginkona Alexei, ávarpaði öryggisráðstefnuna í Munich i dag.
Júlía Navalní, eiginkona Alexei, ávarpaði öryggisráðstefnuna í Munich i dag. AP/Kai Pfaffenbach

Júlía Navalní, eiginkona Alexei Navalní, sem sagður er hafa dáið í fangelsi í Síberíu í dag, segir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, muni verða dreginn til ábyrgðar fyrir dauða eiginmanns hennar reynist satt að hann sé látinn.

Hún segist eiga erfitt með að trúa fregnunum, sem hingað til hafa eingöngu komið frá fangelsismálayfirvöldum í Rússlandi.

Navalní var 47 ára gamall en hann er sagður hafa misst meðvitund eftir göngutúr í fangelsinu í morgun og dáið í kjölfarið. Lögmenn hans eru sagðir á leið í fangelsið þar sem hann var í haldi en það er mjög einangrað í Síberíu.

Navalní hélt átakanlega ræðu í Munchen í Þýskalandi þar sem árleg öryggisráðstefna fer fram. Hún hóf ræðuna á því að hún hefði hugsað sig lengi um hvort hún ætti að hætta við ræðuna og fljúga beint til barna sinna en hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að Alexei hefði farið á svið, hefði hann getað það.

Hún sagði að ef fregnirnar frá Rússlandi væru réttar vildi hún að Pútín, vinir hans og meðlimir ríkisstjórnar hans væru meðvitaðir um að þeir yrðu á endanum dregnir til ábyrgðar fyrir allt sem þeir hefðu gert Rússlandi, fjölskyldu hennar og eiginmanni hennar.

„Ykkar dagur mun koma mjög fjlótt,“ sagði hún.

Sjá einnig: Bjarni segir Pútín bera á­byrgð á andlátinu

Navalní kallaði eftir því að alþjóðasamfélagið tæki höndum saman gegn „illskunni“ í Kreml og kæmi ógnarstjórninni frá völdum.

Þegar hún lauk ræðu sinni og gekk af sviðinu stóðu gestir í salnum á fætur og klöppuðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×