Sigrún Johnson er einn fimm sjálfboðaliða sem lögðu leið sína til Egyptalands í vikunni til þess að aðstoða þá Palestínumenn sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar, að komast til landsins. Sigrún lenti seinni partinn í dag ásamt mæðgunum. Dæturnar þrjár eru þriggja, sex og tólf ára.
Um er að ræða aðra fjölskyldusameininguna í tengslum við átökin á Gasa. Þegar er ein fjölskylda komin til landsins með hjálp Maríu Lilju Þrastardóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Eiríksdóttur.
Fjölskyldufaðirinn hefur dvalið hér á landi í tvö ár. Í samtali við Vísi segir Sigrún mikla fagnaðarfundi hafa átt sér stað þegar þau sameinuðust á Keflavíkurflugvelli í dag.
„Þetta eru ótrúlega ljúfar og flottar stelpur,“ segir Sigrún um dæturnar þrjár. „Ég hef aðeins spjallað við pabbann sem er ekkert nema yndislegheitin. Við erum heppin að fá þau í okkar samfélag.“
Unnið að komu átta til viðbótar
Sigrún segir sjálfboðaliðana hafa aðstoðað mæðgurnar með pappírsvinnu sem hafi þurft að fylla út til þess að komast heim. Sjálfar hafi mæðgurnar, með aðstoð ættingja og vina, safnað pening fyrir ferðalaginu.
„Þetta kom allt í gegn á mánudag en þær fengu ekki símtal fyrr en í gær um að þær myndu fá flug um kvöldið,“ segir Sigrún, en flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna sér um að bóka flug fyrir flóttafólk frá Gasa.
Sigrún segir ferðalagið hafa gengið vel þrátt fyrir hnökra tengda pappírsvinnu. „Þær skilja takmarkaða ensku og hafa aldrei flogið áður þannig að þetta var svolítið nýtt fyrir þeim.“
Mæðgurnar eru í hópi tólf Palestínumanna sem komist hafa á svokallaðan landamæralista, fengið leyfi til þess að fara yfir Rafah-landamærin. Restin af sjálfboðaliðunum vinnur nú að því að koma þeim átta sem eftir standa til landsins.