Marcus Thuram kom liðinu yfir strax á 17. mínútu leiksins og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Lautaro Martinez forystu heimamanna eftir stoðsendingu frá Carlos Augusto, sem einnig hafði lagt upp fyrir Thuram.
Denzel Dumfries bætti svo þriðja markinu við áður en fyrri hálfleik lauk og heimamenn því í góðum málum þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik var svo ekkert sem benti til þess að gestirnir myndu ná að ógna forskoti Inter og Marko Arnautovic virtist vera búinn að skora fjórða mark heimamanna á 80. mínútu, en markið dæmt af vegna rangstöðu. Arnautovic lét það þó ekki stoppa sig og innsiglaði 4-0 sigur Inter með marki á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.
Inter trónir því enn á toppi ítölsku deildarinnar, nú með 63 stig eftir 24 leiki. Liðið er því með tíu stiga forskot á Juventus sem situr í öðru sæti. Salernitana situr hins vegar á botni deildarinnar með 13 stig.