Erlent

Heitir því að halda á­fram að berjast fyrir frjálsu Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yulia segist vita hvers vegna Alexei var myrtur og að hún muni leysa frá skjóðunni á næstunni.
Yulia segist vita hvers vegna Alexei var myrtur og að hún muni leysa frá skjóðunni á næstunni.

„Ég vil lifa í frjálsu Rússlandi, ég vil byggja upp frjálst Rússland,“ segir Yulia Navalnaya, ekkja andófsmannsins Alexei Navalní, í myndskeiði þar sem hún heitir því að halda áfram baráttu eiginmanns síns.

„Vladimir Pútín drap eiginmann minn,“ segir Navalnaya. Hún muni vinna með rússnesku þjóðinni til að berjast við stjórnvöld og byggja nýtt Rússland.

„Þegar hann drap Alexei drap Pútín helminginn af mér; helminginn af hjarta mínu og helminginn af sálu minni,“ segir Navalnaya. „En ég á enn hinn helminginn og hann segir mér að ég eigi ekki rétt á því að gefast upp. Ég mun halda áfram vinnu Alexei Navalní; halda áfram að berjast fyrir landinu okkar.“

Stjórnvöld í Moskvu hafa neitað því að bera ábyrgð á dauða Navalní, sem var sagður hafa látist eftir göngutúr í fangelsinu þar sem honum var haldið. 

Leiðtogar á Vesturlöndum hafa hins vegar ekki veigrað sér við því að lýsa Pútín ábyrgan og í morgun sagði Dmitry Peskov að yfirlýsingar þeirra væru algjörlega óásættanlegar og ergjandi. Þær myndu ekki hafa nein áhrif á stöðu Pútín.

Utanríkisráðherra Eistlands, Margus Tsahkna, gekk svo langt að kalla Pútín „morðingja“.

Navalnaya mun funda með utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×