Skoðun

Einn af hverjum hundrað lendir í vinnu­slysi sem or­sakar fjar­veru frá vinnu

Lovísa Ólafsdóttir skrifar

Það á ekki að geta gerst að einhver fari í vinnuna og snúi aldrei heim aftur. Fólk selur tíma sinn og hæfni til atvinnurekandans en ekki líf sitt. Líf hverrar manneskju er svo óendanlega miklu meira virði en sá kostnaður sem settur er í forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Flest banaslys verða við notkun á tækjum

Tölulegar upplýsingar frá Evrópu fyrir árið 2021 sýna að banaslysum á vinnustöðum fer fjölgandi og allt of margt fólk slasast við vinnu sína. Um 23% banaslysanna áttu sér stað í byggingariðnaðinum, um 17% í flutningaþjónustu, 15% í öðrum iðnaði og um 12% tengdust fiskveiðum, landbúnaði eða skógrækt. Hjá nágrannaþjóðum okkar létust 0,77 einstaklingar á hverja 100.000 starfandi í Svíþjóð og Finnlandi á móti 1,42 í Danmörku og 1,33 í Noregi árið 2021. Flest banaslysin urðu vegna notkunar á vélbúnaði eða öðrum tækjum. Sökum fjölgunar banaslysa í Evrópu fór af stað herferð um stafrænt öryggi haustið 2023 á vegum Evrópusambandsins. Til viðbótar við fjölgun banaslysa hefur einnig aukist tíðni slysa sem orsaka fjarveru frá vinnu, svokölluð fjarveruslys. Tæplega þrír fjórðu allra vinnuslysa í Evrópu ollu áverkum eins og innvortis áverkum, heilahristingi, tognunum, liðfæringum, sárum eða öðrum yfirborðsáverkum. Fjarveruslys voru algengust innan framleiðslufyrirtækja árið 2021 eða um 19% slysa.

Algengara að karlar slasist en konur

Ef við skoðum stöðuna hér á landi þá var fjöldi fjarveruslysa sem eru tilkynningaskyld til Vinnueftirlitsins nokkuð stöðug á árunum 2019–2022, eða um 2.000–2.200 tilkynningar á hverju ári. Þetta þýðir að á hverjum virkum degi slösuðust að meðaltali fleiri en átta manneskjur í vinnuslysi sem leiddi til fjarveru frá vinnu. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 höfðu borist um 1.100 tilkynningar vegna fjarveruslysa til Vinnueftirlitsins. Það er algengara að karlar slasist en konur og má rekja það meðal annars til þess að fleiri karlar starfa í byggingariðnaði, stóriðju og flutningaþjónustu þar sem er að finna mestu áhættuna á slysum. Enn fremur eru elstu og yngstu starfsmennirnir í meiri hættu en aðrir á að slasast.

Eru hjólin að snúast í átt að árangri – er slysum að fækka?

Þegar þróun á heildarfjölda vinnuslysa er skoðuð, og tekið er mið af síðustu tölum frá embætti landlæknis frá 2019, þá slasast að meðaltali sextán manns í vinnunni á hverjum virkum degi. Gera má ráð fyrir að vinnuslysin séu fleiri vegna þess að ekki voru allar heilbrigðisstofnana að senda upplýsingar inn í gagnagrunn embættisins það ár. Árið 2005 var hlutfall vinnuslysa af heildarfjölda starfandi fólks á íslenskum vinnumarkaði um 4,1% samkvæmt tölulegum upplýsingum frá landlækni, en þá var skráningarmenningin ekki eins öflug og nú. Fjórtán árum síðar, árið 2019, var hlutfallið 2,2%. Þó svo að gera megi ráð fyrir einhverjum skekkjumun í þessum tölum þá sýnir þetta þróun í rétta átt. Á árunum 2005 til 2019 tókst að forða að minnsta kosti tvö þúsund og sex hundruð einstaklingum frá vinnuslysi með bættri öryggismenningu, fjölgun á öryggisstjórum og mannauðsfólki ásamt markvissum forvörnum.

Eigum ekki að sætta okkur við banaslys á vinnustöðum

Margt hefur áunnist varðandi banaslys á vinnustöðum þó að við eigum aldrei að sætta okkur við að þau eigi sér yfirleitt stað. Á árunum 1980–1989 voru 5,4 banaslys á vinnustöðum á ári að meðaltali, til samanburðar við 2,2 á árunum 2010–2022. Árið 2023 urðu þrjú banaslys á vinnustöðum sem er þremur banaslysum of mikið. Banaslys meðal sjómanna hér á landi heyra næstum sögunni til sem er mikill munur frá því sem áður var. Liggur ástæðan meðal annars í bættum og tæknivæddum skipaflota og góðu og markvissu forvarnastarfi, ekki síst með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna sem VÍS hefur unnið með í gegnum árin meðal annars í þróun á ATVIK og kaupum á vinnuflotgöllum.

Ábyrgð stjórnenda

Árangur í öryggismálum er ekki tilviljun heldur ákvörðun.Þó svo að mikill árangur hafi náðst í forvörnum og töluverðar framfarir átt sér stað í öryggismálum á vinnustöðum undanfarin tuttugu ár er enn mikið verk að vinna. Í dag eru kyndilberar öryggismála innan vinnustaða aðallega öryggisstjórarnir eða einstaklingur innan vinnustaðarins sem brennur fyrir öryggismálum. Það er hins vegar á ábyrgð stjórnenda að tryggja að vinnuaðstæður og vinnuskipulag sé þannig að starfsmenn verði ekki fyrir slysi. Þó er starfsmaðurinn sjálfur ekki undanskilinn ábyrgð vegna þess að hver og einn einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér og náunganum sem gæti verið í hættu. Áhætturnar liggja meðal annars í menningunni sem viðhöfð er innan vinnustaðarins, samskiptum innan hans, og ekki síst í því að áhættumat er ekki framkvæmt og þar með eru forvarnir ekki settar inn í heildarskipulag og áætlanir vinnustaðarins.

70% framkvæmir ekki áhættumat

Samkvæmt rannsókn sem unnin var af Evrópusambandinu árið 2018 á því hvernig „örfyrirtækjum“ og litlum fyrirtækjum gangi að uppfylla ákvæði vinnuverndarlaga, þá eru um 70% þeirra ekki að ná að uppfylla ákvæði laganna og þar með talið framkvæmdina á áhættumati eins og lögin kveða á um. Fyrirtækin telja meðal annars matið vera flókið í framkvæmd, þörf sé á einföldun og skortur sé á ráðgjöf og stuðningi. Oftar en ekki skortir bolmagn innan örfyrirtækja og lítilla fyrirtækja og gæða-og öryggisstjórnun er oft hluti af öðrum verkefnum sem gerir það að verkum að forvarnir verða ómarkvissari. Aðal áhersla stjórnenda er að halda fyrirtækinu gangandi, álagið er mikið og hendurnar oft fáar. Lang stærsti hluti fyrirtækja hér á landi eru einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki samanborið við „örfyrirtæki“ og lítilla fyrirtækja í Evrópu og því er hægt að heimfæra þessar niðurstöður yfir á íslensk fyrirtæki. Ef okkur á að takast að ná betri árangri og fækka slysum enn frekar er mikilvægt að auka stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, einfalda þætti eins og áhættumatið og efla forvarnaúrræði í formi stafrænna lausna. Mörg fyrirtæki í byggingariðnaði í Svíþjóð hafa til dæmis innleitt svokallað SSG fræðslukerfi hjá sér sem samhæfir iðnaðarþekkingu og þróar staðlaðar lausnir á algengum vandamálum. Einnig hefur verið settur á laggirnar öryggisskóla í mannvirkjagerð að finnskri fyrirmynd þar sem áhersla er lögð á að þjálfa einstaklinginn í að finna sín eigin öryggismörk ásamt því að efla öryggisvitund í starfsmannahópnum.

Hægt að senda ábendingar og skrá atvik með farsíma

VÍS hefur í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á öryggi og forvarnir. Atvikaskráningakerfið ATVIK sem VÍS hefur þróað og leggur til inn í forvarnarstarf hjá sínum viðskiptavinum hjálpar fyrirtækjum að hafa yfirsýn yfir mögulegar hættur og slys í starfseminni svo hægt sé að innleiða forvarnir með markvissum hætti. Í kerfinu verða til staðlaðar skýrslur sem sendar eru með rafrænum hætti, meðal annars til Vinnueftirlitsins. Fyrir síðustu áramót var gerð mikilvæg kerfisbreyting á ATVIK sem gerir einstaklingum mögulegt að skrá atvik eða senda inn ábendingu um hættur í vinnuumhverfinu ásamt myndum í gegnum farsíma, óháð því hvar viðkomandi er staddur við vinnu sína.

Forvarnir og öryggismál í fyrirrúmi

Þann 29. febrúar næstkomandi verður Forvarnaráðstefna VÍS haldin í fjórtánda sinn í Hörpu. Þar mun einvala hópur fyrirlesara fjalla um öryggis- og umhverfisstjórnun út frá ólíkum sjónarhóli. Forvarnaráðstefna VÍS hefur skapað sér ákveðinn virðingarsess í íslensku atvinnulífi og er þetta einn stærsti viðburður hér á landi þar sem forvarnir og öryggismál eru í fyrirrúmi. Ráðstefnan er öllum opin.

Höfundur er sérfræðingur í forvörnum fyrirtækja hjá VÍS.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×