ÍTF lagði til lagabreytingu þess efnis að allt stjórnarfólk KSÍ mætti samhliða þeirri stjórnarsetu sitja í stjórnum eða ráðum hjá aðildarfélögum sambandsins.
Í rökstuðningi sínum sagði ÍTF núgildandi lög leiða til að þess að reynslumiklir aðilar séu ókjörgengnir. Lítil hætta væri á hagsmunaárekstrum því málefni einstakra félaga séu sjaldnast til umræðu stjórnar og öllu jafnan vísað til þar til bærra nefnda.
KSÍ lagði allt aðra hugmynd fram á borð en þar var farið fram á að allir stjórnarmenn KSÍ séu óháðir aðildarfélögum sambandsins og felld yrði úr gildi sú regla að fulltrúi ÍTF sé undanskilinn. Það var sagt gert í samræmi við lýðræðislega og góða stjórnarhætti að undanskilja ekki einn aðila frá hæfisskilyrðum.
Tillaga KSÍ var samþykkt með 124 atkvæðum með og 17 atkvæðum á móti. Tillaga ÍTF var felld með 35 atkvæðum með og 104 atkvæðum á móti.
78. ársþing KSÍ fer fram í Úlfarsárdal. Kosið verður um nýjan formann síðar í dag og fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.