Kári Kristjánsson, sem er einn reynslumesti og virtasti landvörður landsins lét formlega af störfum 1. maí á síðasta ári en þá hafði hann meðal annars unnið í öllum Vatnajökulsþjóðgarði en samhliða því festi hann náttúru þjóðgarðsins á filmu og hefur gefið Vatnajökulsþjóðgarði 10 þúsund ljósmyndir, sem hann hefur tekið í garðinum í gegnum árin.
Kári, sem hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín segist vera ánægður með stöðu þjóðgarðamála á Íslandi og hvernig gestastofurnar eru reknar út um allt land með góðum árangri.
„Það þarf traust íbúanna á viðkomandi svæði eða svæðum til þess að svona geti gengið. Ég hef búið í Skaftárhreppi frá 2015, kom úr Ásbyrgi og fann strax hér hvað það er mikil velvild í garð náttúruverndar,” segir Kári.

En staða ferðamála á Íslandi, hvað finnst honum um hana og þróun ferðamennskunnar?
„Það er víða orðin örtröð á vinsælustu stöðunum þannig að ég segi líka, sem betur fer þá er þessum fjölda ekki stefnt inn á hálendið því þar eru engir innviðir, sem geta tekið á móti þessum fjölda, sem komin er. En þetta leitar væntanlega einhvers jafnvægis í nánustu framtíð, ég trúi því,” segir Kári og bætir við.
„Fólk þarf ekkert endilega að fara inn á hálendið, til dæmis inn í Laka því þar er mjög viðkvæmt svæði eins og við öll vitum, mosi og gjall, sem að tíu ferðamenn geta stórskemmt ef farið er út af gönguleiðum.”