Á vef Veðurstofunnar segir að það verði kalt í norðanáttinni og í kvöld og nótt séu horfur á að tveggja stafa frosttölur mælist í mörgum landshlutum. Heldur vægara frost verður yfir daginn þar sem sólin sé orðin nógu hátt á lofti til að gera svolítið gagn til hitunnar.
Það bætir svo í vind á morgun þegar gengur í norðan 8 til 15 metra á sekúndu og jafnvel hvassara í vindstrengjum suðaustantil eftir hádegi.
„Búast má við éljum á Norður- og Austurlandi, en ekki útlit fyrir að þau verði efnismikil þó. Einnig eru líkur á að snjókomubakki myndist skammt suður af landinu og að snjói úr honum allra syðst. Annars staðar er þurr og bjartur dagur í vændum, til dæmis eins og á öllu Faxaflóasvæðinu.
Á laugardag er síðan gert ráð fyrir hægum vindi og sólríku veðri víða um land, hinn fallegasti vetrardagur í vændum þá.
Á Reykjanesi næstu daga er ekki spáð úrkomu og skyggni ætti að vera gott,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðan 8-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu eftir hádegi. Él á Norður- og Austurlandi og líkur á snjókomu allra syðst, en bjartviðri annars staðar. Frost 3 til 9 stig.
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og víða léttskýjað, en norðan 8-13 og lítilsháttar él við austurströndina. Áfram kalt í veðri.
Á sunnudag: Fremur hæg austlæg átt, bjartviðri og frost 1 til 7 stig, en él eða skúrir suðaustan- og austanlands með hita kringum frostmark.
Á mánudag: Austanátt með rigningu eða slyddu, en snjókomu inn til landsins. Þurrt að kalla á Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig.
Á þriðjudag og miðvikudag: Austan- og suðaustanátt og rigning með köflum, en úrkomulítið vestan- og norðanlands. Hiti 1 til 7 stig.