Atvikið átti sér stað fjórða desember ársins 2023. Þá lenti hann á Keflavíkurflugvelli frá París með 1.176,33 grömm af kókaíni með styrkleika 78-89 prósent, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Maðurinn hét Andreas Theodosiou en aldur hans og ríkisfang liggja ekki fyrir. Hann játaði skýlaust sök samkvæmt ákæru og samþykkti upptökukröfu. Sakavottorð mannsins liggur ekki frammi í málinu og hann hefur ekki sætt refsingu áður að því er vitað er.
Ekki er heldur víst hvort hann hafi átt kókaínið eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum þeirra og smygli fyrir utan það að hafa samþykkt að flytja þau gegn greiðslu.
Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá fimmta desember í fyrra. Hann mun því dvelja í fangelsi fram til fimmta ágúst ársins 2025.
Andreasi verður gert að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins 1.295.217 krónur ásamt þóknun skipaðs verjanda síns sem nemur 717.340 krónur. Ofan í það koma svo 45.024 krónur í aksturskostnað verjanda.