Er reiknað með éljum á Norður- og Austurlandi og allra syðst á landinu muni snjóa fram að hádegi úr snjókomubakka sem muni halda sig við ströndina en fjarlægist síðan.
„Annars staðar er þurr og bjartur dagur í vændum, til dæmis á Faxaflóasvæðinu. Það er kalt hjá okkur og viðbúið að frostið bíti í kinnar í norðan næðingnum í dag.
Á morgun sest hæð yfir landið og það lægir víðast hvar með léttskýjuðu veðri eða heiðríkju, en áfram verður kalt. Það er því útlit fyrir sólríkan og fallegan vetrardag á landinu á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða léttskýjað, en norðan 8-13 og lítilsháttar él við austurströndina fram eftir degi. Frost 2 til 12 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.
Á sunnudag: Austan 3-8 á vestanverðu landinu, bjartviðri og minnkandi frost. Gengur í austan 8-13 austantil með slyddu, en síðar rigningu og hita yfir frostmarki.
Á mánudag: Austan 5-13 með rigningu eða slyddu, en snjókomu inn til landsins. Þurrt að kalla vestanlands. Hiti 0 til 5 stig.
Á þriðjudag: Austan og suðaustan 5-13 og rigning eða slydda með köflum, en þurrt á norðanverðu landinu. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag: Stíf suðaustanátt og dálítil væta um landið suðaustanvert, en þurrt að kalla norðan- og vestanlands. Hiti 3 til 8 stig.
Á fimmtudag: Suðaustanátt og rigning, en úrkomulítið norðantil á landinu. Hiti svipaður.