Skoðun

Al­­þjóð­­legur dagur heyrnar

Telma Sigtryggsdóttir skrifar

Höldum virkni og lífsgæðum með forvörnum og aðstoð við kaup á nauðsynlegum hjálpartækjum”

Í dag er alþjóðlegur dagur heyrnar og í tilefni þess langar mig að fjalla um þau áhrif sem að heyrnartap getur haft á líf þess sem fyrir því verður.

Heyrnartap getur átt sér stað á mismunandi tíma æviskeiðsins allt frá því að geta komið framm á barnsaldri, unglingsárum, fullorðinsárum eða elliárum. Alveg sama hvenær heyrnartap á sér stað þá hefur það óhjákvæmlega áhrif á líf einstaklingsins.

Þegar að einstaklingur uppgötvar heyrnartap sitt og fær staðfestingu á því verður hann óneitanlega fyrir sorg. Sorg yfir því að vera búin að missa eitthvað sem er óafturkræfanlegt í flest öllum tilvikum. Því fylgir einnig mikið óöryggi og spurningar eins og “ hversu fljótt missi ég alla heyrn” “mun ég missa alla heyrn”, “ á ég ekki eftir að geta heyrt í börnunum mínum, manninum mínum, barnabörnum, vinum?” “ á ég eftir að geta unnið jafnt á við mína jafnaldra?” vakna.

Afleiðingar heyrnartaps geta verið margslungnar. Sem dæmi má nefna að einstaklingar með heyrnartap geta farið að einangra sig, forðast að vera í fjölmenni, finna fyrir aukinni þreytu og pirring sem að jafnvel getur þróast í þunglyndi.

Andlega þreytan við að vera alltaf að berjast við að reyna að heyra það sem framm fer í umhverfinu getur verið svo yfirþyrmandi.

Það er þess vegna einstaklega mikilvægt að einstaklingur með heyrnartap eigi möguleika á að nýta sér öll þau hjálpartæki sem að í boði eru. Með því að eiga kost á því að eignast gæðaheyrnartæki og geta fengið stuðning við kaup á tækjum sem að geta aðstoðað í daglegu lífi heldur einstaklingnum virkum í samfélaginu í mun lengri tíma en ella.

Því miður er rauninn samt ekki sú að auðvelt aðgengi sé að heyrnarmælingum eða niðurgreiðsla heyrnartækja eða annarra hjálpartækja sé viðunandi hér á landi. Langt í frá.

Fjölmargir einstaklingar með heyrnartap neyðast til þess að bíða í meira en tvö ár eftir fyrstu mælingu og fjölmargir einstaklingar sem að þurfa að nota heyrnartæki hafa ekki efni á að kaupa sér tæki sem að nýtast þeim.

Þetta getur orðið til þess að einstaklingar með heyrnartap hafa þegar dregið sig í skel, hafa fundið fyrir auknu óöryggi og litlu sjálfsmati og janvel þunglyndi þegar að loksins þeir fá tíma í mælingu og fræðslu um hvað gæti hjálpað þeim.

Sumir hafa jafnvel hætt að vinna vegna þessa og hafa minnkað samskipti við fjölskyldu og vini.

Það átta sig flestir á því hve mikilvægt forvarnarstarf er og hversu mikla fjármuni það getur oft skapað. Að grípa fólk fljótt með því að aðstoða það við það halda í sína getu og virkni sem lengst hlýtur að vera það bæði ríkinu, samfélaginu og einstaklingnum sem þjáist af heyrnatapi fyrir bestu. Almenn lífsgæði ættu að vera í boði fyrir alla.

Höfundur er stjórnarmaður í Heyrnarhjálp, félagi heyrnarskertra og varaformaður Heilbrigðishóps ÖBÍ.




Skoðun

Sjá meira


×