Fótbolti

Tekur við fé­lagi í níunda sinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Napoli er mættur aftur til Craiova eftir stutt hlé.
Napoli er mættur aftur til Craiova eftir stutt hlé. Getty

Ítalinn Nicolo Napoli hefur verið ráðinn þjálfari U Craiova í Rúmeníu innan við ári eftir að hafa verið rekinn. Þetta er í níunda skipti, fyrst 2003, sem hann tekur við þjálfun félagsins en sjaldnast hefur hann enst í meira en tólf mánuði í senn.

Mikil þjálfaravelta er hjá rúmenska félaginu og staldra fæstir við lengi. Napoli var síðast þjálfari liðsins frá nóvember 2022 fram í maí 2023 en var þá sagt upp störfum. Þá hafði hann þjálfað liðið frá janúar 2022 fram í júní sama ár, þegar hann var rekinn, bara til að taka aftur við í nóvember.

Eftir að félagið losaði sig við arftaka hans á dögunum kom nafn hans fljótt upp í umræðuna og kvaðst hann bíða eftir símtalinu.

Eigandi félagsins kvaðst hins vegar ekki áhugasamur og ekki í fyrsta sinn sem hann segir að Napoli muni aldrei þjálfa liðið aftur.

„Ég sá að Napoli fylgist með stöðunni. Mér er alveg sama. Hann er vinur minn, við berum virðingu fyrir honum, en kaflanum er lokað. Við höfum ekki áhuga,“ sagði Adrian Mititelu, eigandi félagsins, fyrir örfáum dögum.

Honum virðist hafa snúist hugur, og ekki í fyrsta skipti, þar sem Napoli var kynntur sem nýr stjóri liðsins í gær.

Þetta er í tíunda skipti sem hann fær starf hjá félaginu, og í það níunda sem hann tekur við þjálfarastöðunni, en hann var íþróttastjóri félagsins um nokkurra mánaða skeið árið 2011.

Fyrst varð hann þjálfari liðsins fyrir rúmum 20 árum, í desember 2003 og entist þá aðeins fram í mars 2004.

Þjálfarastöður Nicolo Napoli hjá Craiova

  1. desember 2003 til mars 2004
  2. október 2007 til maí 2009
  3. janúar til apríl 2011
  4. apríl til júní 2011 (íþróttastjóri)
  5. júlí 2013 til febrúar 2014
  6. október 2018 til maí 2019
  7. ágúst til október 2020
  8. janúar til júní 2022
  9. nóvember 2022 til maí 2023
  10. mars 2024 til ?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×