Það mætti halda að fréttamaður stæði fyrir framan fallegan fjallgarð á Austurlandi en svo er ekki. Undirrituð er stödd í Reykjavík hjá stærðarinnar snjóskafli og þeir eru víða í borginni.
Eftir snjóþungan vetur virðist vorið á næsta leyti, þar til maður sér næstu snjóhrúgu og er rækilega minntur á veðurfarið á Íslandi.
Snjóskaflarnir eru sem fyrr segir víða og valda flestir ekki miklum ama þó dæmi séu um það. Við Suðurlandsbraut má til að mynda sjá snjóskafl þekja fjögur til fimm bílastæði. Það virðist þó ekki stoppa ökumenn bíla sem reyna að leggja ofan á skaflinum til að sinna erindum á svæðinu, líkt og sjá má í sjónvarpsfréttinni.
Þar má líka sjá hvernig stærðarinnar snjóskafl blasir við ökumönnum sem keyra Suðurlandsbraut í átt að Hallarmúla sem gerir það að verkum að ökumenn sjá illa bíla sem aka úr gagnstæðri átt.
Staðsetningin skiptir máli
Ofangreindir skaflar eru ekki í borgarlandinu og því undir eigendum bílastæðisins á Suðurlandsbraut komið hvort þeir verði fjarlægðir að sögn skrifstofustjóra hjá vetrarþjónustu Reykjavíkurborg. Engin leið er þó að vita hvort snjónum hafi verið mokað af borgarlandi á blettinn eða af einkalóð á svæðið.
Skrifstofustjórinn segir að almennt standi ekki til að fjarlægja snjóhrúgur í borgarlandinu nema í þeim tilfellum þar sem þær ógna öryggi eða útsýni.
„Alltaf ef þetta veldur einhvers konar öryggisógn, skerði sjónlínur á gatnamótum þannig að það sé umferðaröryggi sem sé ógnað,“ segir Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri hjá vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar.
Látnir bráðna
Beðið verði eftir því að snjóskaflarnir bráðni en Hjalti hvetur borgarbúa til að láta vita ef skafl ógnar öryggi.
„Senda endilega á ábendingavef borgarinnar og þá munum við skoða málin og sjá hvort þetta falli undir það að fjarlægja og við gerum það þá fljótt og vel.“