Samkvæmt samningunum hækka laun árlega að lágmarki um 23.750 krónur og í hlutfalli við það upp launflokka. Almenn launahækkun er 3,25 prósent á þessu ári en 3,5 prósent á næstu þremur árum þar á eftir. Samningarnir eru afturvirkir frá 1. febrúar og aðrar hækkanir koma 1. janúar hvert ár.
Þá verður desemberuppbót á þessu ári 106 þúsund krónur og hækkar um 12 þúsund krónur á samningstímanum. Orlofsuppbót tekur svipuðum breytingum og hækkar um sex þúsund krónur á samningstímanum.
Orlofsdögum fjölgar
Til viðbótar getur komið til greiðslu kauptaxtaauka hækki launavísitala meira en viðmiðunartaxi . Einnig getur komið til framleiðniauka á samningstímanum.
Lágmarks orlof verður 25 dagar hafi starfsmaður unnið í sex mánuði hjá sama fyrirtæki og náð 22 ára aldri. Eftir fimm ár verða orlofsdagarnir 28.

Samningurinn endurskoðaður reglulega
Einnig náðist fram töluverð lagfæring á kjörum ræstingarfólks, sem oftast skrapar botninn í launum. Það fær tveggja launaflokka hækkun auk 19.500 krónur á mánuði aukalega ofan á aðrar launahækkanir samninga miðað við fullt starf
Í samningunum eru síðan ákveðin forsenduákvæði um þróun verðbólgu og verða samningar endurskoðaðir 1. september á næsta ári og 1. september árið 2026 í því samhengi.
Samningarnir gilda til 31. janúar 2028.
Þessum samningum er beinlínis ætlað að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Ef það nær fram að ganga yrði það ein mesta kjarabót samninganna.


