Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem kveðinn var upp klukkan 15 í dag. Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna. Gerð verður nánari grein fyrir niðurstöðunni þegar dómurinn birtist.
Ákærð fyrir rangar sakargiftir en maðurinn aldrei ákærður
Í ákæru á hendur konunni sagði að höfða bæri sakamál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á hendur konunni fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa með rangri kæru og röngum framburði hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, sunnudaginn 11. júlí og fimmtudaginn 15. júlí árið 2021, leitast við að koma því til leiðar að Dziugas Petrauskas, litháískur knattspyrnumaður og íbúi á Húsavík, yrði sakaður um eða dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn konunni, í heimahúsi á Húsavík, aðfararnótt sunnudagsins 11. júlí sama ár.
Sjaldséð ákvæði
Í umfjöllun Vísis um málið á sínum tíma sagði að ákvæði hegningarlaga um rangar sakargiftir væri örsjaldan beitt í framkvæmd. Með snöggri leit á vef dómstólanna má sjá að það er oftast gert í ölvunarakstursmálum, þar sem ökumenn hafa sagst vera einhver annar en þeir eru í raun og veru.
Í samtali við Vísi sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að það að kynferðisbrot sé fellt niður þýði ekki að það liggi eitthvað fyrir um að kærandi hafi verið að ljúga. Sönnunarbyrði í slíkum málum sé sú sama og þegar um ákæru um kynferðisbrot er að ræða.