Catherine Russel, framkvæmdastjóri Unicef, segir sérstakt áhyggjuefni að svo virðist sem aðgerðirnar séu nú framkvæmdar á stúlkum þegar þær eru afar ungar, allt niður í fimm ára gamlar. Þetta geri það að verkum að tíminn til að grípa inn í og koma í veg fyrir aðgerðina sé skemmri en áður.
Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að útrýma kynfæralimlestingum kvenna (e. FGM) fyrir árið 2030 en samkvæmt Unicef þyrfti vinnan að ganga 27 sinnum hraðar ef það á að verða að raunveruleika.
Kynfæralimlestingar kvenna eru ekki að breiðast út í heiminum en fleiri stúlkur eru að fæðast í ríkjum þar sem þær eru stundaðar.
Kynfæralimlestingar kvenna fela í sér að kynfærin eru fjarlægð að öllu leyti eða að hluta. Þetta á við um ytri og innri skaparbarma og snípinn og þá er í sumum tilvikum saumað fyrir leggöngin.
Ályktun um að banna kynfæralimlestingar kvenna var samþykkt af Sameinuðu þjóðunum árið 2012. Um það bil 60 prósent tilfella hafa átt sér stað í Afríku, eða 140 milljónir, 80 milljónir í Asíu og sex milljónir í Mið-Austurlöndum.
Aðgerðirnar eru algengastar í Sómalíu, Gíneu, Djibouti, Egyptalandi, Súdan og Malí.