Veður

Dregur úr vindi þegar líður á morguninn

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir að það kólni um helgina.
Gera má ráð fyrir að það kólni um helgina. Vísir/RAX

Alldjúp og kröpp lægð fór til vesturs skammt suður af Reykjanesi í nótt og olli hvassri austan- og suðaustanátt með talsverðri rigningu á þeim slóðum.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að það muni draga smám saman úr vindi er líður á morguninn og verður fremur hæg austlæg átt og lítilsháttar væta sunnantil eftir hádegi.

Annars verður bjart með köflum og fremur mildar hitatölur, þrjú til tíu stig.

Áfram svipað veður um helgina og fram í næstu viku, en kólnar smám saman og má því búast við slyddukenndari úrkomu, frá og með sunnudeginum.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðaustlæg átt, 5-8 m/s og bjart með köflum, en 8-13 m/s og lítilsháttar væta við suður- og austurströndina. Hiti 0 til 7 stig, svalast í innsveitum norðanlands.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag: Austlæg átt, 3-8 m/s og skýjað með köflum, en 8-13 dálitlar skúrir eða slydduél við suður- og austurströndina. Hiti víða 0 til 5 stig, en yfirleitt vægt frost norðan heiða.

Á miðvikudag: Útlit fyrir stífa austanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið norðantil. Hiti nærri frostmarki.

Á fimmtudag: Líklega suðaustlæg átt, rigning með köflum og hlýnandi veður, en úrkomuminna norðan heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×