Erlent

Vara við á­rásum öfga­manna í Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá neðanjarðarlesakerfi Moskvu. Yfirvöld í Rússlandi hafa ekkert sagt um viðvörun Bandaríkjamanna.
Frá neðanjarðarlesakerfi Moskvu. Yfirvöld í Rússlandi hafa ekkert sagt um viðvörun Bandaríkjamanna. EPA/YURI KOCHETKOV

Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu varaði við því í gærkvöldi að „öfgamenn“ hyggðu á árásir í borginni. Til stæði að ráðast á staði þar sem fólk kæmi saman, eins og á tónleikum, og voru Bandaríkjamönnum í Rússlandi ráðlagt að forðast mannmergð næstu tvo sólarhringa.

Að öðru eru litlar upplýsingar í yfirlýsingu sendiráðsins.

Skömmu áður en yfirlýsingin var gefin út tilkynntu yfirmenn öryggisstofnanna í Rússlandi að um síðustu helgi hefði verið komið í veg fyrir áætlun öfgamanna frá Íslamska ríkinu í Afganistan um að myrða fólk í bænahúsi gyðinga, samkvæmt frétt Reuters.

Ekki hefur verið staðfest að viðvörunin tengist hinni meintu ISIS-árás. Þá hafa ríkismiðlar í Rússlandi ekkert sagt um viðvörun Bandaríkjamanna.

Rússar segjast hafa fellt nokkra hryðjuverkamenn í áhlaupi í bænum Karabulak í Ingushetia í Kákasusfjöllum og lagt hald á skotfæri og sprengiefni. AP fréttaveitan segir íbúa bæjarins hafa birt myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem heyra mátti háværan skotbardaga.

Sex menn eru sagðir hafa verið felldir í áhlaupinu.

Í frétt AP segir að árásir öfgamanna séu tíðar í Ingushetiu. Óróleiki þar hafi aukist eftir innrásina í Úkraínu og óvinsæla herkvaðningu árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×