Eftir sex markalausa leiki í röð skoraði Albert Guðmundsson sitt tíunda mark á tímabilinu er Genoa tók á móti Monza í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Liðið þurfti þó að sætta sig við 3-2 tap.
Gestirnir í Monza tóku forystuna strax á áttundu mínútu þegar Matteo Pessina kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Andrea Colpani. Tíu mínútum síðar lagði Colpani upp annað marg Monza fyrir Dany Mota sem skoraði stórglæsilegt mark þegar hann klippti boltann á lofti í fjærhornið.
Albert og félagar gengu því til búningsherbergja 2-0 undir, en eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik fékk Genoa vítaspyrnu. Albert fór á punktinn, en lét Michele Di Gregorio í marki Monza verja frá sér. Boltinn barst þó út í teig, á Albert sem mokaði honum yfir línuna.
Það var svo varamaðurinn Vitinha sem jafnaði metin fyrir Genoa með góðu marki á 68. mínútu, en gestirnir náðu forystunni á ný með marki frá Daniel Maldini þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.
Þrátt fyrir ágæta spretti á lokamínútunum tókst heimamönnum í Genoa ekki að jafna og niðurstaðan varð því 3-2 sigur Monza. Albert og félagar sitja því enn í 12. sæti deildarinnar með 33 stig, sex stigum minna en Monza sem situr í 10. sæti.