Handbolti

Bene­dikt Gunnar bætti 22 ára marka­met Hall­dórs Ingólfs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson skorar eitt af sautján mörkum sínum í bikarúrslitaleiknum.
Benedikt Gunnar Óskarsson skorar eitt af sautján mörkum sínum í bikarúrslitaleiknum. Vísir/Hulda Margrét

Benedikt Gunnar Óskarsson var í gær fyrsti maðurinn í sögu bikarúrslitaleik karla í handbolta til skora fimmtán, sextán eða sautján mörk í einum úrslitaleik.

Benedikt bætti 22 ára gamalt markamet Halldórs Ingólfssonar frá 2002 þegar hann skoraði sitt fimmtánda mark í leiknum. Benedikt bætti við tveimur mörkum og skoraði því samtals sautján mörk í 43-31 sigrinum á Eyjamönnum.

Benedikt þurfti líka aðeins nítján skot til að skora þessu sautján mörk. Hann skoraði úr öllum ellefu skotum sínum utan af velli en klikkaði á tveimur af átta vítum sínum. Benedikt var einnig með fimm stoðsendingar og kom því með beinum hætti að 22 mörkum Valsmanna í leiknum.

Halldór setti metið í 30-20 marka sigri Hauka á Fram í úrslitaleiknum 2002. Hann þyrfti sautján skot til að skora þessi fjórtán mörk og sjö af þeim komu af vítapunktinum. Halldór gaf einnig sex stoðsendingar í leiknum og kom því með beinum hætti að tuttugu mörkum.

Þegar Halldór setti metið þá var hann að bæta metið um þrjú mörk en fyrir 2002 hafði mest verið skorað ellefu mörk í einum bikarúrslitaleik. Metið áttu þá Patrekur Jóhannesson, Róbert Julian Duranona og Gunnar Berg Viktorsson sem allir höfðu náð að skora ellefu mörk í bikarúrslitaleik.

Arnór Atlason var nálægt því að jafna met Halldórs tveimur árum síðar þegar hann skorað þrettán mörk í 32-23 sigri KA á Fram í bikarúrslitaleiknum 2004. Arnór nýtti þá 13 af 16 skotum og fimm af mörkum hans komu af vítalínunni. Arnór átti einnig sjö stoðsendingar og kom því með beinum hætti að tuttugu mörkum eins og Halldór.

Næstur því að jafna metið á síðustu árum var Agnar Smári Jónsson sem skoraði tólf mörk fyrir Eyjamenn í bikarúrslitaleiknum 2018 en ekkert af þeim mörkum kom af vítalínunni.

  • Markamet í bikarúrslitaleik karla í handbolta:
  • 17/6 Benedikt Gunnar Óskarsson, Val 2024
  • 14/7 Halldór Ingólfsson, Haukum 2002
  • 13/5 Arnór Atlason, KA 2004
  • 12 Agnar Smári Jónsson, ÍBV 2018
  • 11/2 Patrekur Jóhannesson, KA 1995
  • 11/2 Róbert Julian Duranona, KA 1996
  • 11/5 Gunnar Berg Viktorsson, Fram 2000

Tengdar fréttir

„Það fór bara allt inn“

Valur vann tólf marka sigur gegn ÍBV 31-43 í úrslitum Powerade-bikarsins. Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, fór hamförum og skoraði 17 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×