Skoðun

Þjóð ofur­seld í morðingja­hendur

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Afstaða stjórnvalda í mörgum vestrænum ríkjum þýðir í raun að þessir aðilar hafa ofurselt þjóð Palestínu í hendur stjórnvalda í Ísrael. Þessi ríki taka afstöðu með Ísrael og segja að landið hafi rétt til að verja sig. Þó sjá allir sem vilja sjá að Ísrael er ekki að verja sig - síonistarnir sem stýra málum eru að verja landrán, kúgun og morð. Þjófar og morðingjar eru aldrei í rétti - nema núna - nú eru þeir studdir til verka.

Nú blasir sú staðreynd við að þjóðirnar sem segjast verja mannréttindi og frelsi eru vísvitandi að særa það alþjóðlega réttarkerfi, sem m.a. Alþjóðadómstóllinn er hluti af, holundarsári sem mun veikja það ef ekki drepa.

Einnig stefnir í sömu átt varðandi UNRWA. Ísland hefur ásamt fleiri ríkjum rekið rýting í þá stofnun á grundvelli ásakanna sem hafa reynst lygar einar.

Ísrael hefur friðhelgi til þess að drepa með öllum ráðum, flugskeytum, sprengjum, fallbyssuskothríð, leyniskyttum og með sviptingu lífsbjargarinnar.

Börn deyja úr hungri, heilu fjölskyldurnar eru þurrkaðar út, fjölmiðlafólk, læknar, hjúkrunarfólk, skáld og menningarfrömuðir - allt myrt með hnitmiðuðum aðgerðum morðingjahersins.

Háskólar, sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, barnaskólar, moskur, bókasöfn og íbúðarhús - allt lagt í rúst.

Þetta er þjóðarmorð.

Almenningur verður að rísa gegn þeim aðilum sem styðja þjóðarmorð - við verðum að stöðva viðskipti við morðingjana - við eigum ekki að syngja með fulltrúum þeirra á sviði - við eigum ekki að leika við þá í íþróttaleikjum - við eigum að útiloka morðingjana og einangra.

Ef það tekst þá er mögulegt að brjóta ofurvald Bandaríkjanna og stuðningsríkja þeirra á bak aftur og ná þannig að losa Palestínumenn undan rústunum sem vestrænar ríkisstjórnir bera mikla ábyrgð á.

Höfundur er formaður Félagsins Ísland – Palestína og höfundur bókarinnar Íslandsstræti í Jerúsalem.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×